Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti í gær að hann hefði samið við ríkisstjórn Gana um 426 milljarða króna neyðarlán, en vestur-afríska þjóðin glímir við mikla efnahagskreppu um þessar mundir.
Ríkisstjórn Gana, sem er þegar mjög skuldsett, stendur frammi fyrir sögulega hárri verðbólgu, um 40 prósent. Ganverski gjaldmiðillinn, cedi, hefur einnig tekið á sig gríðarlegt högg í kjölfar stríðsins í Úkraínu.
„Það gleður mig mjög að tilkynna að AGS og ganverska ríkisstjórnin hefur samið um þriggja milljarða dala lán sem dreift verður yfir þriggja ára tímabil,“ segir Stephanie Roudet, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Gana.
Talsmenn AGS segjast vonast eftir því að lánið muni hjálpa Gana að endurheimta stöðugleika og sjálfbærni í skuldaferli sínu. Samkomulagið verður yfirfarið í Washington þar sem framkvæmdastjórn sjóðsins mun veita lokasamþykki sitt fyrir því. Nana Akufo-Addo, forseti Gana, hefur mátt þola mikla gagnrýni vegna viðbragða sinna við efnahagskreppu landsins og þá sérstaklega fyrir það að leita aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Forsetinn fullyrti fyrir fjórum árum að þjóð hans þyrfti ekki lengur á utanaðkomandi aðstoð að halda.
Íbúar Gana hafa þurft að búa við síhækkandi verðlag og óttast nú að lánið muni neyða ríkisstjórnina til að grípa til íþyngjandi niðurskurðaraðgerða.
Efnahagur landsins hefur verið aðkrepptur frá því í byrjun árs 2022 og hækkaði verðbólga meðal annars úr 13,9 prósentum í janúar í 37,2 prósent í september. Sumir sérfræðingar segja hins vegar að opinberar tölur standist ekki og að raunveruleg verðbólga gæti jafnvel verið í kringum 98 prósent. Verð á bensíni og dísilolíu í Gana hefur til að mynda hækkað um 88,6 prósent og 128,6 prósent og miðaverð í almenningssamgöngum hefur hækkað um 100 prósent.
Gana er mikill gull- og kakóframleiðandi og býr yfir miklum gasforða, en greiðslubyrði lána hefur rokið upp úr öllu valdi. Þar að auki hefur stríðið í Úkraínu haft gríðarlega neikvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar, sem og stóran hluta Vestur-Afríku.