Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðurinn til­kynnti í gær að hann hefði samið við ríkis­stjórn Gana um 426 milljarða króna neyðar­lán, en vestur-afríska þjóðin glímir við mikla efna­hags­kreppu um þessar mundir.

Ríkis­stjórn Gana, sem er þegar mjög skuld­sett, stendur frammi fyrir sögu­lega hárri verð­bólgu, um 40 prósent. Gan­verski gjald­miðillinn, cedi, hefur einnig tekið á sig gríðar­legt högg í kjöl­far stríðsins í Úkraínu.

„Það gleður mig mjög að til­kynna að AGS og gan­verska ríkis­stjórnin hefur samið um þriggja milljarða dala lán sem dreift verður yfir þriggja ára tíma­bil,“ segir Stephani­e Rou­det, yfir­maður sendi­nefndar Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðsins í Gana.

Tals­menn AGS segjast vonast eftir því að lánið muni hjálpa Gana að endur­heimta stöðug­leika og sjálf­bærni í skulda­ferli sínu. Sam­komu­lagið verður yfir­farið í Was­hington þar sem fram­kvæmda­stjórn sjóðsins mun veita loka­sam­þykki sitt fyrir því. Nana Aku­fo-Addo, for­seti Gana, hefur mátt þola mikla gagn­rýni vegna við­bragða sinna við efna­hags­kreppu landsins og þá sér­stak­lega fyrir það að leita að­stoðar hjá Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðnum. For­setinn full­yrti fyrir fjórum árum að þjóð hans þyrfti ekki lengur á utan­að­komandi að­stoð að halda.

Í­búar Gana hafa þurft að búa við sí­hækkandi verð­lag og óttast nú að lánið muni neyða ríkis­stjórnina til að grípa til í­þyngjandi niður­skurðar­að­gerða.

Efna­hagur landsins hefur verið að­krepptur frá því í byrjun árs 2022 og hækkaði verð­bólga meðal annars úr 13,9 prósentum í janúar í 37,2 prósent í septem­ber. Sumir sér­fræðingar segja hins vegar að opin­berar tölur standist ekki og að raun­veru­leg verð­bólga gæti jafn­vel verið í kringum 98 prósent. Verð á bensíni og dísil­olíu í Gana hefur til að mynda hækkað um 88,6 prósent og 128,6 prósent og miða­verð í al­mennings­sam­göngum hefur hækkað um 100 prósent.

Gana er mikill gull- og kakó­fram­leiðandi og býr yfir miklum gas­forða, en greiðslu­byrði lána hefur rokið upp úr öllu valdi. Þar að auki hefur stríðið í Úkraínu haft gríðar­lega nei­kvæð á­hrif á efna­hag þjóðarinnar, sem og stóran hluta Vestur-Afríku.