GAMMA Capital Management, sem sameinaðist Kviku banka í fyrra, tapaði ríflega 316 milljónum króna á síðasta ári borið saman við 268 milljóna króna tap á árinu 2018, eftir því sem fram kemur í nýlegum ársreikningi fjármálafyrirtækisins.

Tapið kemur að stærstum hluta til vegna endurmats á stöðu fagfjárfestasjóðanna GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia sem reyndist mun verri en áður var talið eins og greint var frá í september í fyrra.

Heildartekjur GAMMA námu tæplega 763 milljónum króna í fyrra, borið saman við 1.418 milljónir króna árið 2018, en umsýslu- og árangurstengdar þóknanir félagsins lækkuðu um 56 prósent á milli ára.

Þá voru rekstrargjöld félagsins rúmar 888 milljónir króna á síðasta ári og drógust saman um tólf prósent frá árinu 2018 þegar þau voru um 1.009 milljónir króna. Laun og launatengd gjöld lækkuðu um 33 prósent á milli ára en annar rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 32 prósent.

GAMMA átti eignir upp á samanlagt 2,9 milljarða króna í lok síðasta árs borið saman við 3,8 milljarða króna eignir í árslok 2018. Munar þar mest um að langtímakröfur á fagfjárfestingasjóði, vegna ákvæða um árangurstengda þóknun GAMMA, fóru úr 1.612 milljónum króna í lok árs 2018 í 759 milljónir króna í lok síðasta árs.

Þá tapaði fjárfestingasjóðurinn GAMMA: Total Return Fund liðlega 224 milljónum króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi sjóðsins.

Hrein eign sjóðsins, sem er í slitaferli, var um 768 milljónir króna í lok síðasta árs borið saman við 2.121 milljón króna í árslok 2018 og 5.450 milljónir í lok árs 2017. Alls námu innlausnir hlutdeildarskírteina í sjóðnum um 1.130 milljónum króna umfram sölu á árinu.

Fjárfestingasjóðurinn skilaði neikvæðri raunávöxtun upp á 21 prósent í fyrra, eftir því sem fram kemur í ársreikningi hans, en þar er auk þess tekið fram að ríflega níutíu prósent af eignum sjóðsins séu í fagfjárfestasjóðum og óskráðum hlutabréfum, en það er talsvert utan marka fjárfestingaheimilda hans.

Stærstu eignir sjóðsins eru hlutdeildarskírteini í ýmsum fasteignasjóðum GAMMA auk eignarhlutar í Arctic Adventures að bókfærðu virði um 156 milljónir króna.

Tap alþjóðlega fjárfestingasjóðs-ins GAMMA: Global Invest, sem er einnig í slitaferli, nam 323 þúsundum evra, jafnvirði um 49 milljóna króna, í fyrra en eignir sjóðsins voru 380 milljónir króna í lok síðasta árs borið saman við ríflega 1.320 milljónir króna í árslok 2018. Var raunávöxtun sjóðsins neikvæð um 14 prósent á síðasta ári.