Innlent

Gamli og nýi

Gærdagurinn var birtingarmynd um gamla og nýja tíma í verslun. Á sama tíma og Amazon varð verðmætasta fyrirtæki veraldar, eða um 800 milljarðar dala að markaðsvirði, var formlega tilkynnt að hinn gamalgróni verslunarrisi, Sears, yrði tekinn til gjaldþrotaskipta. Sears var upprunalega pöntunarlisti sem sendur var á heimili fólks, og opnaði síðar verslanir um öll Bandaríkin. Allt til 1989 var Sears stærsta verslunarfyrirtæki Bandaríkjanna hvað tekjur varðar.

Fall Sears er auðvitað birtingar­mynd nýrra tíma í verslun. Fyrirtækið er löngu hætt að senda bæklinga sína inn á öll heimili, og verslanirnar urðu tímaskekkja eftir því sem árin liðu. Ris Amazon er svo hin hliðin á sama peningi. Netverslun án landamæra og allt sem henni fylgir. Raunar eru fá svið mannlífsins sem Amazon snertir ekki á. Amazon seldi upprunalega tónlist og bækur, en er í dag allt í senn markaðstorg fyrir allt milli himins og jarðar, alhliða afþreyingarveita, gagnageymsla á netinu. Fyrirtækið selur raftæki undir eigin nafni, allt frá lestölvum og spjaldtölvum yfir í raddstýrða hátalara, matvöru og svo mætti áfram telja. Allt er þetta svo sent heim í stofu.

Það er í þessum heimi sem fyrirtæki á borð við Sears eiga erfitt með að fóta sig. Skyldi engan undra, þau sitja á langtímaleigusamningum á stöðum sem fólk vill ekki lengur versla á. Af hverju að rífa sig af stað þegar þú getur fengið sent heim í stofu? Kostnaður í breyttum heimi sligaði fyrirtækið að endingu.

Þetta er þróun sem á sér stað alls staðar í heiminum og þvert á landamæri. Fornfrægir breskir verslunarrisar eiga í miklum vandræðum. Hér á Íslandi sjáum við að stóru verslunarfyrirtækin láta suma vöruflokka hreinlega ósnerta. Hagar hafa undið nánast alveg ofan af rekstri tískuverslana sinna. Þar skiptir erlend samkeppni vafalaust langmestu.

Dæmin sýna hins vegar að ekki er öll nótt úti enn fyrir hefðbundnar verslanir. Þannig hafa Harrods og Selfridges skilað metárangri síðustu misseri. Þeim hefur tekist að feta þetta vandrataða einstigi milli nýja tímans og þess gamla.

Verslun á gamla mátann mun ekki leggjast af. Þeir sem sofa á verðinum verða þó ekki langlífir.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Í samstarf við risa?

Innlent

Þróa leiðir fyrir markaðssetningu í Kína

Innlent

Falla frá kaupréttum í WOW air

Auglýsing

Nýjast

Vilja marg­feldis­kosningu fyrir aðal­fund

O'Leary: Lág fargjöld grisjuðu WOW air út

Simmi hættur hjá Keiluhöllinni

Eim­skip breytir skipu­lagi og lækkar for­stjóra­launin

Varaformaðurinn kaupir fyrir fimm milljónir í Högum

Segir hörð átök skaða orðspor og afkomu

Auglýsing