Ragnar Þór segir Seðlabankann verða að svara þeirri spurningu hvernig vaxtahækkun hans slái á innflutta verðbólgu. Einnig segir hann að krefja verði bankann svara við því hvers vegna ekki var farið í aðrar aðgerðir en vaxtahækkun.

„Hægt hefði verið að stytta lánstíma nýrra húsnæðislána úr 40 í 30 ár. Það þyngir greiðslubyrði og hefur áþekk áhrif og vaxtahækkun án þeirra skaðlegu áhrifa sem fylgja vaxtahækkun,“ segir Ragnar.

Hann segir að hægt hefði verið að setja tímabundið bann við því að lögaðilar kaupi íbúðarhúsnæði. Einnig hefði Seðlabankinn getað lækkað leyfileg veðhlutföll, sem hefði haft þau áhrif að draga úr eftirspurn eftir húsnæði.

„Þetta er í raun ekkert annað en skýr stríðsyfirlýsing Seðlabankans gagnvart launafólki í landinu. Bankinn stendur með bönkunum og fjármagninu gegn almenningi. Þetta fer að verða spurning um að mótmæla fyrir framan Seðlabankann,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að með því að hækka vexti um heilt prósent í baráttu sinni við innflutta verðbólgu, sem þegar sé farin að valda almenningi búsifjum, hafi Seðlabankinn lagt línurnar fyrir kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningunum sem eru lausir í haust.

„Við hljótum að miða kröfugerð okkar við endurheimt þess sem Seðlabankinn tekur með því að láta launafólk bera allar byrðar af baráttu hans við innflutta verðbólgu,“ segir Ragnar Þór.