„Ósanngjörn“ gagnrýni Alþýðusambands Íslands á launakjör flugverja hjá Play gæti haft neikvæð áhrif á þátttöku lífeyrissjóða í hlutafjárútboði flugfélagsins. Þetta sagði Birgir Jónsson, forstjóri Play, í viðtals- og fréttaþætti Markaðarins, sem var sýndur á Hringbraut í gærkvöldi.

ASÍ sakaði Play opinberlega um að undirbjóða laun starfsfólks til þess að halda fargjöldum í lágmarki og hvatti almenning til að sniðganga flugfélagið.

„Ég ætla ekki að neita því að þetta setur neikvæðan blæ á þetta útboð og í rauninni rekstur félagsins, sem mér finnst mjög ósanngjarnt. Það er verið að búa til fleiri hundruð störf í íslensku atvinnulífi, sem ekki er vanþörf á,“ sagði Birgir og bætti við að hann teldi ólíklegt að gagnrýnin hefði á endanum skaðleg áhrif á miðasölu félagsins eða útboðið sjálft.

„En þetta gæti vel orðið til þess að einhverjir lífeyrissjóðir ákveði að taka ekki þátt. Það er sorglegt vegna þess að umræðan hefur leitt það í ljós að þessi gagnrýni er ósanngjörn.“

Play stefnir á að selja 32 prósenta hlut í félaginu og afla 33-36 milljóna Bandaríkjadala, jafnvirði 4 til 4,4 milljarða króna, dagana 24. og 25. júní, í aðdraganda skráningar á First North-markað Kauphallarinnar.

Birgir benti á að í fyrsta sinn væru kjör flugverja opinber eins og kjör annarra stétta.

„Núna er hægt að leggja þessar tölur fram, eins og við höfum gert, og þá sér hver maður sem vill setja sig inn í þessi mál að launin eru ekki undir neinum lágmarkslaunum eða út úr korti við íslenskan veruleika.“

Þá sagði hann ljóst að ASÍ væri í hagsmunagæslu fyrir aðildarfélag sitt, Flugfreyjufélag Íslands.

„Ég ber virðingu fyrir því. Það er verið að verja aðra samninga og önnur kjör sem eru byggð á öðrum forsendum. En ég ætla ekki að neita því að ég hefði búist við ögn málefnalegri nálgun af ASÍ. Þau hefðu kannski átt að óska eftir fundum með Play eða stéttarfélagi starfsmanna okkar, áður en kallað var eftir sniðgöngu á félaginu af hálfu fjárfesta og almennings.“