Fé­lag at­vinnu­rek­enda (FA) hefur sent at­vinnu- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu og ráð­herra þess, Kristjáni Þór Júlíus­syni, bréf þar sem vinnu­brögðum ráðu­neytisins í tengslum við út­boð á toll­kvóta fyrir bú­vörur frá ríkjum Evrópu­sam­bandsins eftir ára­mót er harð­lega gagn­rýnt. Ólafur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri FA, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að vinnu­brögðin séu dæmi um af­leita stjórn­sýslu sem bitni á inn­flytj­endum á bú­vörum. Seina­gangur ferlisins og stífni ráðu­neytisins geri þeim erfitt fyrir með sinn rekstur á meðan aðrar að­gerðir stjórn­valda beinast að því að gera fyrir­tækjum lífið auð­veldara í far­aldrinum.

Mánuði seinna en vanalega

Gagn­rýni FA beinist aðal­lega að tveimur at­riðum; annars vegar með hve skömmum fyrir­vara út­boðið var aug­lýst og það rétt áður en nú­verandi gildis­tímabil toll­kvóta rennur út og hins vegar því að ráðu­neytið hafi ekki veitt inn­flytj­endum á bú­vörum fram­lengingu á nú­verandi gildis­tíma um einn mánuð eins og þeir höfðu margir óskað eftir.

„Þetta var dregið vikum saman og svo er út­boðið aug­lýst nokkrum dögum áður en toll­kvótinn á að taka gildi,“ út­skýrir Ólafur Stephen­sen. Ráðu­neytið sendi fé­lags­mönnum FA aug­lýsingu sína og gögn vegna út­boðsins í gær, rétt eftir klukkan 16, það er eftir hefð­bundinn skrif­stofu­tíma. Þar er farið fram á að fyrir­tækin skili inn til­boðum í kvóta fyrir há­degi þriðju­dags 29. desember. Nýtt gildis­tímabil tekur svo gildi 1. janúar og mun nú að­eins gilda í fjóra mánuði.

Ólafur segir að undan­farin ár hafi gildis­tíminn aldrei verið styttri en hálft ár og sé jafn­vel oftar ár fyrir bú­vörur frá ríkjum Evrópu­sam­bandsins. Einnig hafi út­boð toll­kvóta sem gilda hafi átt frá ára­mótum yfir­leitt verið aug­lýst eigi síðar en í síðustu viku nóvember, stundum fyrr og þá hafi myndast stjórn­sýslu­venja fyrir því að gildis­tíminn sé fram­lengdur um mánuð, hafi fyrir­tækjum ekki tekist að flytja inn allan kvóta sinn um ára­mót.

Tapa nokkrum vikum

„Það er þessi stífni ráðu­neytisins núna við það að gefa mönnum ein­hverja fram­lengingu á gildis­tímanum þannig að menn eigi auð­veldara með að flytja inn toll­kvóta. Nú liggur líka fyrir að það verður ekki hægt að flytja inn þann toll­kvóta sem á að taka gildi um ára­mótin fyrr en bara í febrúar,“ segir Ólafur. Beðinn um að út­skýra það nánar segir hann:

„Af því að fyrst þarf út­boðið að fara fram, síðan á ráðu­neytið eftir að segja mönnum hvort þeir fái kvóta, hversu mikinn og hvað þeir þurfa að borga fyrir hann. Svo þarf að panta og senda vörurnar og svo fram­vegis,“ segir hann. Hann telur að þessu ferli yrði lokið hjá fæstum fyrir febrúar.

„Þannig það er alveg deginum ljósara að með öllu þessu hringli og þessari af­leitu stjórn­sýslu hjá ráðu­neytinu þá eru menn búnir að tapa nokkrum vikum framan af gildis­tímanum. Svo er gildis­tíminn í ofan­á­lag orðinn bara fjórir mánuðir í staðinn fyrir hálft ár. Það hefði líka verið lang­eðli­legast að menn fengju fram­lengingu á gildis­tímanum út janúar fyrst að ráðu­neytið er að gera þetta með fá­einna daga fyrir­vara“ segir Ólafur.

„Þetta er bara alveg út úr kortinu eins og við höfum bent á. Það er verið að gera inn­flytj­endum á bú­vöru erfiðara fyrir með sinn rekstur á meðan allar aðrar að­gerðir stjórn­valda beinast að því að gera fyrir­tækjum lífið auð­veldara í þessum far­aldri. Og okkur finnst bara ekki vera neinar mál­efna­legar á­stæður fyrir því.“