„Stjórnendur ríkisfyrirtækisins Íslandspósts ohf. hafa á undanförnum misserum tekið ákvarðanir, sem stórskaða samkeppni á póstmarkaði. Félag atvinnurekenda (FA) telur ástæðu til að spyrja á hvaða vegferð hin pólitískt skipaða stjórn fyrirtækisins sé.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA og fullyrt að pólitísk stjórn vilji drepa samkeppni á póstmarkaði.

Nefnt er að í maí síðastliðnum hafi Íslandspóstur kynnt áform sín um að fella niður magnafslætti af reglubundnum viðskiptum. Gangi þau áform eftir, muni tveir keppinautar Póstsins, póstsöfnunarfyrirtækin Póstmarkaðurinn og Burðargjöld, neyðast til að hætta starfsemi.

Einokunarstaða Íslandspósts

Bent er á að fyrirtækin safni saman pósti frá stórnotendum, t.d. bönkum og tryggingafélögum, og miðli áfram til Íslandspósts, sem enn hafi einokunarstöðu á markaði fyrir bréfapóst, þótt einkaréttur fyrirtækisins hafi verið afnuminn með lögum í ársbyrjun 2020. Afsláttur upp á 2 til 5 prósent hefur verið veittur þessum fyrirtækjum vegna þess hagræðis sem Pósturinn hefur af reglubundnum viðskiptum með mjög mikið magn bréfa frá söfnunarfyrirtækjunum.

Enn fremur segir að viðskiptavinir stóru söfnunarfyrirtækjanna njóti mun betri kjara en þeir myndu njóta í beinum viðskiptum við Íslandspóst. Breytt póstlög geri áfram ráð fyrir að afslættir af þessu tagi séu veittir.

Mun styrkja einokunarstöðu Póstsins

Félag atvinnurekenda telur einsýnt að verði þessir magnafslættir afnumdir muni það kippa grundvellinum undan rekstri söfnunarfyrirtækjanna og þau neyðist til að hætta rekstri. Viðskipti þeirra munu falla ríkisfyrirtækinu sjálfu í skaut og einokunarstaða þess styrkist þá enn.

Gjaldskrá til notenda póstþjónustu, sem í dag skipta við söfnunarfyrirtækin en myndu neyðast til að skipta við Íslandspóst, myndi að mati félagsins hækka um allt að 70 prósent. Sé 15 prósent hækkun á gjaldskrá bréfapósts hjá Póstinum um áramót tekin með í reikninginn, getur hækkunin numið allt að 96 prósentum.

Misnotkun á ráðandi stöðu

Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Póstsins um niðurfellingu afsláttanna kunni að fela í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu ríkisfyrirtækisins.

„Við botnum ekkert í því að trúnaðarmenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi, sem ákveða gjaldskrá félagsins, skuli þannig vitandi vits reyna að drepa niður samkeppni á póstmarkaðnum og ná viðskiptum af einkafyrirtækjum til ríkisfyrirtækisins,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.