„Við áttum ekki von á að peninga­stefnu­nefndin myndi hækka vexti á þessum tíma­punkti,“ segir Daníel Svavars­son, for­stöðu­maður Hag­fræði­deildar Lands­bankans.

Seðla­bankinn hækkaði stýri­vexti í gær um 0,25 prósent, í 1,25 prósent. Í rök­stuðningi var vísað til batnandi horfa í efna­hags­lífinu og að verð­bólga væri um­tals­verð. Verð­bólga mælist nú 4,3 prósent en verð­bólgu­mark­miðið er 2,5 prósent. Þrjár opin­berar spár grein­enda gerðu ráð fyrir ó­breyttum vöxtum, en fjár­festar gerðu ráð fyrir hækkuninni miðað við verð­lagningu skulda­bréfa í Kaup­höllinni.

„Á sama tíma og það er aukin ó­vissa um fram­þróun Co­vid-19 far­aldursins, bæði vegna út­breiðslu Delta-af brigðisins og hægs gengis bólu­setninga í fá­tækari ríkjum heimsins, erum við að sjá merki um að verð­bólga hafi náð há­marki og muni lækka niður í mark­mið um mitt næsta ár. Það eru því engin aug­ljós merki um að það hafi verið að­kallandi að hækka stýri­vexti á þessu stigi, enda ljóst að efna­hags­batinn er afar brot­hættur og út­lán banka­kerfisins til fyrir­tækja enn að dragast saman, sem er merki um að at­vinnu­vega­fjár­festing er enn ekki farin að taka við sér,“ segir Daníel.

Agnar Tómas Möller, sjóðs­stjóri hjá Kviku eigna­stýringu, segir að á­kvörðun Seðla­bankans hafi ekki komið „sér­stak­lega á ó­vart“ að því leyti til að markaðurinn hafði verð­lagt bæði þessa hækkun og um­tals­vert f leiri vaxta­hækkanir í verð skulda­bréfa. Þótt verð­bólgu­væntingar, einkum til lengri tíma, hafi færst að mark­miði og vís­bendingar séu um að verð­bólga sé á leið niður, vill Seðla­bankinn festa verð­bólgu­væntingar enn betur í sessi. Vaxta­hækkun sé ein leið að því tak­marki.

„Aðal­þátturinn í á­kvörðuninni virðist þó vera kröftugur gangur í hag­kerfinu á þessu ári sem og minnkandi at­vinnu­leysi, en ekki síst að bankinn er bjart­sýnn á að Delta-af brigðið muni hafa lítil á­hrif á efna­hags­batann horft fram á veginn,“ segir hann, en nefnir að blikur séu á lofti. Máli sínu til stuðnings vísar hann í breyttar væntingar neyt­enda vestan­hafs og þróun á er­lendum skulda- og hluta­bréfa­mörkuðum þegar litið sé til fyrir­tækja sem tengjast ferða­þjónustu, sem bendi til að ó­vissan í þeirri at­vinnu­grein sé mikil.

„Lík­lega er efna­hags­batinn því brot­hættari en lesa mátti úr skila­boðum Seðla­bankans í dag. Einnig til­tók seðla­banka­stjóri að mínus 2,5 prósenta raun­stýri­vextir væru of lágir miðað við stöðuna í dag, en gallinn við þann mæli­kvarða er að hann lýsir liðinni tíð – miðað við verð­bólgu­spá Seðla­bankans og þá vaxta­þróun sem lesa má úr þróun ríkis­bréfa, verða raun­stýri­vextir orðnir vel já­kvæðir á seinni hluta næsta árs. Heimili og fyrir­tæki eru því að festa vexti í dag miðað við miklu hærri vexti en nemur stýri­vöxtum Seðla­bankans og skamm­tíma­vextir því ekki ein­hlítur mæli­kvarði á vaxta­að­hald bankans.

Að því sögðu mun Seðla­bankinn vera með nóg af upp­lýsingum til að taka á­kvarðanir á næstu fundum og er alls ekki víst að vaxta­hækkanir verði jafn­tíðar og margar og markaðir hafa verið að verð­leggja undan­farið. Mikill við­snúningur á í­búða­lánum úr fljótandi í fasta vexti gæti sem dæmi hraðað því að vaxta­hækkanir Seðla­bankans bíti, þar sem munur á fljótandi og föstum vöxtum er í dag um prósent, en vaxta­á­lag bankanna á fasta vexti á sama tíma um­tals­vert lægra en á fljótandi vöxtum.

Það er því lík­legt að með hverri vaxta­hækkun Seðla­bankans minnki líkurnar á að næsta vaxta­hækkun verði að veru­leika, gangi verð­bólgan niður á næsta ári líkt og bankinn spáir,“ segir Agnar Tómas.


Seðla­banka­stjóri segir banka­kerfið aldrei hafa staðið sterkar

Seðla­banka­stjóri telur að bankarnir séu í kjör­að­stæðum til að styðja við fjár­festingu í at­vinnu­lífinu, nú þegar efna­hags­lífið er að rétta úr kútnum eftir kórónu­veirufar­aldurinn.

„Banka­kerfið hefur aldrei staðið jafn sterkt og það gerir nú, frá því eftir fjár­mála­á­fallið árið 2008,“ út­skýrir Ás­geir Jóns­son í sam­tali við Markaðinn.

„Þar skipta máli að­gerðir stjórn­valda á liðnu ári, eins og að loka fyrir mót­töku 30 daga bundinna inn­lána í Seðla­bankanum, sem hafði þau á­hrif að ýta mjög miklu lausa­fé út í hag­kerfið sem jók eftir­spurn – og inn­lán í bönkunum hafa á sama tíma aukist mjög mikið. Þá hafa við­skipta­bankarnir al­mennt verið að hag­ræða í rekstrinum hjá sér og kostnaðar­hlut­föll þeirra lækkað. Þessar að­gerðir ættu að skila því að vaxta­munur bankanna lækki þegar fram í sækir. Við sjáum því mjög já­kvæð teikn á lofti í banka­kerfinu,“ segir Ás­geir, og bætir við:

„Þrátt fyrir að sumir séu að býsnast yfir því að bankarnir séu nú að skila góðum hagnaði, þá er rétt að muna að í fyrra voru á­hyggjurnar þær að bankarnir myndu steikjast í þessum far­aldri. Sterk staða þeirra er því meðal annars til marks um hversu miklum árangri mót­vægis­að­gerðir Seðla­bankans og stjórn­valda hafa skilað.“

Fram kemur í Peninga­málum að bankinn hafi keypt skulda­bréf fyrir 22,6 milljarða króna frá því að hann boðaði slík kaup á ríkis­skulda­bréfum í maí 2020.

Að­spurður hvort bankinn sé hættur að beita sér á skulda­bréfa­markaði, stundum nefnt magn­bundin í­hlutun, segir Ás­geir að bankinn ætli núna að stíga til hliðar. „Við hættum að leggja fram kaup­til­boð í júlí og peninga­stefnu­nefnd er sam­mála um að bíða og sjá núna hver þróunin verður á markaði – þótt þessi heimild verði að sama skapi á­fram til staðar. Við getum gripið til að­gerða aftur ef að­stæður kalla á það.“

Seðla­banka­stjóri bætir því við að þær að­gerðir sem gripið var til í upp­hafi far­aldursins, mikil og skjót lækkun vaxta á­samt því að af­nema vexti á bundnum inn­lánum í Seðla­bankanum, hafi haft afar já­kvæð á­hrif og þá hafi einnig gengið betur að fjár­magna ríkis­sjóð en reiknað var með.

„Þegar lokað var fyrir bundnu inn­lánin í Seðla­bankanum, þá fóru bankarnir að kaupa þess í stað stutta ríkis­víxla og þannig tóku þeir að sér það hlut­verk að fjár­magna ríkis­sjóð. Þá má ekki gleyma því að salan á hlut í Ís­lands­banka, sem skilaði ríkis­sjóði 55 milljörðum, létti mjög á láns­fjár­þörfinni auk þess sem skjótari efna­hags­bati en áður var á­ætlað þýðir að staða ríkis­fjár­mála er sterkari en ella.“