Gagnamagn á fastaneti hefur aukist um 33 prósent á milli ára á fyrsta helmingi ársins. Umfangið nam 286.233 terabætum, samkvæmt skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Markaðshlutdeild Vodafone í niðurhali á fastanetinu dróst saman á tímabilinu úr 40,6 prósentum í 36 prósent, hlutdeild Símans dróst saman úr 34,2 prósentum í 32,3 prósent, hlutdeild Nova jókst úr 16,6 prósentum í 22,5 prósent og hlutdeild Hringdu fór úr 8,6 prósentum í 9,1 prósent.

Gagnamagnið á farsímaneti jókst um 54,4 prósent á milli ára í 36.782 terabæt. Þar hefur verið mikill vöxtur undanfarin ár. Markaðshlutdeild Nova hefur á því sviði aukist frá fyrri helmingi ársins 2018 úr 56,7 prósentum í 63,3 prósent á fyrri helmingi þessa árs, hlutdeild Símans hefur dregist saman á tímabilinu úr 25,1 prósent í 23,5 prósent og hlutdeild Vodafone lækkað úr 16,5 prósentum í 10,7 prósent. Hlutdeild annarra jókst úr 1,7 prósentum í 2,6 prósentum.

Gagnamagn á farsímaneti

Gagnamagn á farsímaneti.
Mynd/Póst- og fjarskiptastofnun

Heildarlengd símtala sem hringt var úr farsímum hefur aukist um 20,7 prósent á milli frá fyrri árshelmingi 2019 til fyrri árshelmings 2020. Talað var í 578 þúsund mínútur í símtölum sem hringt var úr farsíma á fyrri helmingi ársins.

Markaðshlutdeild Símans jókst úr 32 prósentum á fyrri helmingi ársins 2018 í 38,5 prósent á fyrri helmingi ársins í ár, hlutdeild Nova dróst saman úr 38,7 prósentum í 34 prósent og hlutdeild Vodafone dróst saman úr 25,9 prósentum í 22,6 prósent. Hlutdeild annarra jókst úr 3,4 prósentum í 4,8 prósentum á tímabilinu.