Icelandair Group gæti látið reyna á kjarasamningsákvæði fyrir félagsdómi, svo að unnt sé að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ). Þetta er valmöguleiki sem stjórnendur Icelandair Group íhuga að grípa til, samkvæmt heimildum Markaðarins, ef ekki nást samningar við stéttarfélagið.

„Þetta hlýtur að vera einn af þeim valkostum, sem Icelandair verður að skoða, þar sem staða félagsins er mjög erfið,“ segir Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður TravelCo og fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, í samtali við Markaðinn.

„Opinn og frjáls vinnumarkaður þýðir í raun að það er mögulegt að leita starfsmanna utan ákveðinna stéttarfélaga og félagafrelsi tryggir að starfsfólk þarf ekki að vera í ákveðnu stéttarfélagi, ef það kýs svo. Að því leyti ætti þetta að vera raunhæfur möguleiki fyrir félagið að skoða,“ segir Jón Karl.

„Það er hins vegar ólík­­legt, að þessi forgangsréttarákvæði standist ef starfsmaður kýs, af einhverjum ástæðum, að vera utan stéttarfélags.“

Jón Karl segir að í flestum kjarasamningum tengdum Icelandair, megi finna ákvæði um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags eigi forgangsrétt á störfum hjá flugfélaginu. „Það er hins vegar ólík­­legt, að þessi forgangsréttarákvæði standist ef starfsmaður kýs, af einhverjum ástæðum, að vera utan stéttarfélags,“ bæti Jón Karl við.

Þá bendir hann á að finna megi mörg dæmi um mál þar sem einstaklingar hafi ekki viljað vera í ákveðnum stéttarfélögum og lent í vandræðum hjá vinnuveitanda vegna þess. Niðurstaðan í þessum málum hafi nær undantekningarlaust verið starfsmönnum í hag, þar sem vísað var í grundvallarreglu í félagarétti, sem sé að fólk geti staðið utan félags.

„Ef starfsmaður vill semja við Icelandair og kýs að standa utan stéttarfélags, þá get ég ekki séð að það verði hægt að banna slíkt með vísun í skilyrði í kjarasamningi við stéttarfélag. Það hafa áður verið áhafnir við störf hjá íslenskum félögum, sem hafa staðið utan stéttarfélaga,“ segir Jón Karl og rekur að WOW air hafi um tíma unnið með áhafnaleigum og fengið flugmenn til starfa með þeirri leið.

Jón Karl Ólafsson.

„Primera Air var með blöndu erlendra og innlendra áhafna,“ nefnir Jón Karl, en hann stýrði félaginu á árunum 2008 til 2014. „Stéttarfélög voru ekki alltaf sátt við þetta og meðal annars boðaði Flugfreyjufélag Íslands ítrekað til verkfalla hjá Primera Air, þó að enginn starfsmaður félagsins væri þar félagsmaður. Ef ég man rétt, þá var öllum þessum málum vísað frá félagsdómi og ekki kom til verkfalla.“

Fulltrúar Icelandair gátu ekki tjáð sig um málið þegar eftir því var leitað. Icelandair hefur nú þegar náð samningum við flugmenn og flugvirkja, en félagið kappkostar að ná fram yfir 20 prósenta hagræðingu í launakostnaði fyrir hluthafafund á föstudaginn þar sem tekin verður ákvörðun um liðlega 30 milljarða hlutafjárútboð. Flestir stærstu hluthafar Icelandair Group, sem eru einkum íslenskir lífeyris- og verðbréfasjóðir, gera það að skilyrði fyrir mögulegri aðkomu að hlutafjárútboði flugfélagsins, að kjarasamningar náist við flugstéttir Icelandair til mjög langs tíma.

Flugfreyjufélag Íslands hafnaði samningstilboði sem Icelandair Group lagði fram 10. maí. Tillögur Icelandair til breytinga á kjarasamningum flugfreyja myndu gera flugfélaginu kleift að fjölga meðalfjölda flugtíma um ríflega fimmtán prósent á ári, sem er ígildi eins Evrópuflugs á mánuði.

Breytingarnar myndu þannig „færa Icelandair frá því að vera flugfélag þar sem flugfreyjur og flugþjónar fljúga hlutfallslega fáa tíma, í að vera samkeppnishæft við önnur flugfélög á okkar mörkuðum,“ eins og segir í kynningu á samningstilboðinu sem Markaðurinn greindi frá í síðustu viku. Ekki eru lagðar til breytingar á orlofsréttindum en flugfreyjur Icelandair fá allt að 43 daga í orlof á ári.

Laun flugfreyja Icelandair myndu standa í stað á næstu tveimur árum og hækka um þrjú prósent árið 2023 samkvæmt samningstilboðinu. Launahækkanir yrðu svo fjögur prósent á hvoru ári 2024 og 2025. Í kynningunni kom fram að heildargreiðslur til flugfreyja – það er útborguð laun og dagpeningar –væru að meðaltali á bilinu 460 þúsund krónur til 600 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt núgildandi kjarasamningi. Er þá miðað við meðaltalsupphæðir óháð áfangastöðum. Til viðbótar ættu flugfreyjur árlega rétt á desemberuppbót og orlofsuppbót, að fjárhæð samanlagt um 260 þúsundum króna.