Tvö stór lyfjafyrirtæki eiga í viðræðum við lyfjarisann Teva Pharmaceutical Industries í tengslum við söluferlið á Medis, dótturfyrirtæki Actavis. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg sem byggir á frásögnum heimildarmanna. 

Hefur Bloomberg eftir heimildarmönnum að sænska lyfjafyrirtækið Recipharm AB og hið brasilíska EMS séu á meðal þeirra sem Teva á í viðræðum við. Auk þess séu stórir framtakssjóðir á meðal bjóðenda.

Heimildarmenn Bloomberg segja söluferlið komið í aðra umferð og niðurstaða þess geti komið í ljós fyrir árslok. Teva hafi hins vegar ekki útilokað halda að í Medis ef tilboðin eru ekki ásættanleg. Þeir segja jafnframt að salan geti skilað Teva um 500 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 55 milljörðum íslenskra króna.

Medis sér um sölu og útflutning á lyfjum og hugverkum Actavis og starfa um 80 manns hjá Medis hér á landi. Fyrir um ári síðan greindi Teva frá því að Medis hefði verið sett á sölu en Med­is varð hluti af Teva eft­ir yf­ir­tökuna á Actavis árið 2016.

Eftir yfirtökuna glímdi Teva við mikla skyldabyrði og þurfti lyfjafyrirtækið að grípa til þess að segja upp starfsfólki og selja tilteknar eignir. Coripharma og hópur fjárfesta keypti í sumar lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði og húsnæði fyrirtækisins að Reykjavíkurvegi 76 af Teva.

Samkvæmt síðasta ársreikningi Medis fyrir árið 2016 hagnaðist félagið um 10,4 milljónir evra og nam veltan um 265 milljónum evra.