Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 2,3 prósentustig á milli mánaða á meðan árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi dróst saman um 0,2 prósentustig. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 5,8 prósent í október. Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að fara þurfi varlega í að draga sterkar ályktanir af þessum tölum milli mánaða.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

„Það þarf því að fara varlega í að draga sterkar ályktanir af þessum tölum á milli mánaða. Það sem slær mig helst við mælt atvinnuleysi samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er að það hefur ekki verið að þróast með sama hætti og tölur Vinnumálastofnunar, þar sem um skráð atvinnuleysi er að ræða,” segir Anna Hrefna og bendir á að þar hafi atvinnuleysi farið stöðugt minnkandi frá því í janúar og sé nú í lægsta gildi frá því faraldurinn hófst eða í 4,9 prósentum.

„Vinnumarkaðsrannsóknin sýnir aftur á móti mesta atvinnuleysi í hálft ár, eða 5,8 prósent árstíðaleiðrétt.“

Hún bætir við að hún hafi helst áhyggjur af langtímaatvinnuleysinu sem þó virðist vera á undanhaldi.

„Þar hafa úrræði á borð við Hefjum störf eflaust haft áhrif með meira en 7000 ráðningar. Svo á eftir að koma í ljós hvaða áhrif slík úrræði munu hafa til lengri tíma litið þegar gildistími þeirra tekur að fjara út.“

Aðspurð hver hún telji vera ástæðuna fyrir því að atvinnuleysi sé jafn mikið og raun ber vitni meðan erfitt reynist fyrir vinnuveitendur að fá starfsfólk segir Anna Hrefna að það gæti verið að atvinnuleysistryggingakerfið skapi óæskilega hvata.

„Þetta er óheppileg staða og tilefni til að rýna betur hvaða þættir skýra þetta helst. Það gætu verið fólksflutningar vegna faraldursins og misræmi í þörfum atvinnurekenda og hæfni starfsfólks. Það gæti líka verið að atvinnuleysistryggingakerfið sé að skapa óæskilega hvata. Ef svo er þurfa stjórnvöld að endurskoða það heildstætt.”