Í ágúst nýliðnum fóru 14 prósent færri Íslendingar til útlanda en á sama tíma í fyrra. Vafalaust spilar brotthvarf WOW þar stóra rullu en líklega frámuna veðurblíða á landinu ekki síður.

Eftirtektarverðast er þó að þrátt fyrir að flugferðum til Íslands hafi fækkað um þriðjung milli ára, og að í ágúst hafi um 350 þúsund færri farið um Leifsstöð en fyrir ári, þá hafa veltutölur vegna erlendra ferðamanna sáralítið breyst. Að flugi undanskildu nemur samdrátturinn einungis um 0,2 prósentum. Velta gististaða og veitingahúsa er óbreytt milli ára, og nýtingarhlutfall gististaða lækkaði einungis lítillega. Á sama tíma hefur talsverð hagræðing átt sér stað í ferðaþjónustunni. Launþegum hefur fækkað um 10 prósent, og hefur fækkað í öllum flokkum ferðaþjónustu.

Ef draga á ályktanir af þessum nýbirtu tölum þá virðist sem arðbærari ferðamenn komi enn til landsins. WOW var auðvitað lággjaldaflugfélag og því var sennilega um annars konar ferðamenn að ræða en þá sem sætta sig við oft á tíðum himinhá fargjöld Icelandair. Þeir sem setja slíkt ekki fyrir sig eru einfaldlega líklegri til að borga meira í mat, drykk, verslun og afþreyingu þegar til landsins er komið.

Margir hafa kallað eftir því lengi að Ísland setji sér almennilega stefnu hvað varðar ferðaþjónustuna. Kannski er þarna uppskriftin komin. Ísland er dýrt land og verður það sennilega alltaf. Við erum einfaldlega ekki samkeppnishæf þegar kemur að verðlagi. Er ekki allt í lagi að gera sér grein fyrir því, og stuðla að ferðaþjónustu sem er kannski minni að umfangi en byggist á efnameiri ferðamönnum?

Það á ekki að vera markmið í sjálfu sér að fá marga ferðamenn til landsins. Frekar að þeir sem hingað komi fái fyrsta flokks upplifun af landi og þjóð. Til að svo megi verða þarf að passa átroðning á náttúruperlum, og að sjá til þess að innviðir séu ásættanlegir. Slíkt kostar.

Gæði umfram magn ættu að vera kjörorðin. Slík stefna væri bæði efnahag og náttúru til bóta.