Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans í dag .Hækkandi húsnæðisverð, hærri vextir og þrengri lánþegaskilyrði hafa gert fólki erfiðara um vik að komast inn á fasteignamarkaðinn. Íbúðaverð hefur hækkað um 50 prósent á þremur árum, stýrivextir hafa verið hækkaðir úr 0,75 prósent í 6 prósent á einu og hálfu ári og Seðlabankinn hefur hert þær kröfur sem gerðar eru til nýrra lánþega, bæði hvað varðar veðsetningu og greiðslubyrði.
Lánþegaskilyrði Seðlabankans virðast hafa áhrif
Í júní 2021 lækkaði Seðlabankinn 85 prósent hámarksveðsetningarhlutfallið í 80 prósent fyrir alla nema fyrstu kaupendur. Ári síðar var það svo einnig lækkað fyrir fyrstu kaupendur, úr 90 prósent í 85 prósent. Fjármálastöðugleikanefnd fjallaði um það í júní að hækkandi fasteignaverð kæmi m.a. illa við fyrstu kaupendur og meðaltal bæði veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalls þeirra hefði hækkað og hætta væri því á óhóflegri skuldsetningu. Reglur um hámarksveðsetningu voru ekki síst settar á til þess að vinna gegn aukinni kerfisáhættu, en þær eru einnig til þess fallnar að slá á eftirspurn með því að draga úr aðgengi að lánsfé.
Eftir að reglurnar tóku gildi má sjá að meðalveðsetningarhlutfall, bæði fyrir alla og meðal fyrstu kaupenda, hefur farið lækkandi. Þótt enn sé of snemmt að leggja mat á áhrifin áætlar Seðlabankinn í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika að þau séu þó nokkur. Þar kemur líka fram að frá miðju ári 2020 fram á þriðja ársfjórðung 2021 hafi um 20-25 prósent af fjárhæð lánveitinga til fyrstu kaupenda verið með veðsetningarhlutfall yfir 85 prósent. Hlutfallið hefur þó farið lækkandi síðan, en sérstaklega hratt eftir að reglurnar voru settar.
Annað tæki sem Seðlabankinn hefur til þess að hamla skuldsetningu er að setja takmörk á greiðslubyrði lántaka sem hlutfall af ráðstöfunartekjum þeirra. Nýjar reglur tóku gildi í desember í fyrra um að hlutfallið mætti ekki vera hærra en 35 prósent og 40 prósent meðal fyrstu kaupenda. Í júní á þessu ári tilkynnti Seðlabankinn svo að við útreikning á hámarksgreiðslubyrði fasteignalána ætti að miða við tiltekna lágmarksvexti, 5,5 prósenta vexti fyrir óverðtryggð lán og 3 prósenta fyrir verðtryggð lán. Auk þess var gerð breyting á hámarki lánstíma við útreikning á greiðslubyrðarhlutfalli fyrir verðtryggð lán, niður í 25 ár.
Meðaltal greiðslubyrðarhlutfalls var í kringum 19 prósent þegar stýrivextir höfðu verið lækkaðir niður í 0,75 prósent árið 2020. Það fór svo lítillega hækkandi eftir því sem vextir hækkuðu, sérstaklega meðal fyrstu kaupenda, en tók aftur að lækka á þessu ári. Lækkunin á árinu hlýtur að skýrast fyrst og fremst af breyttum reglum, því þótt meðaltalið, bæði allra og meðal fyrstu kaupenda, sé undir hámarkinu má ætla að reglurnar um hámark dragi meðaltalið niður. Seðlabankinn áætlar að ef reglurnar hefðu verið í gildi allt síðasta ár hefði það haft áhrif á 5-7 prósent lánveitinga alls.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans metur það svo að lánþegaskilyrðin hafi skilað árangri og í nýjustu yfirlýsingu nefndarinnar segir meðal annars: „Dregið hefur úr misvægi á íbúðamarkaði á síðustu mánuðum samhliða því sem framboð á eignum til sölu hefur aukist og sölutími fasteigna lengst. Beiting lánþegaskilyrða hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum og stuðlað að hærra hlutfalli eiginfjár.“
Verðtryggingin ryður sér til rúms á ný
Til þess að lækka greiðslubyrði virðast lántakar í auknum mæli bregða á það ráð að taka verðtryggt lán í stað óverðtryggðs og víst má telja að nokkur fjöldi fyrstu kaupenda kæmist nú ekki inn á eignamarkaðinn öðruvísi en með því að taka verðtryggt lán. Vextir á verðtryggðum lánum eru lægri og sveiflast minna en á óverðtryggðum og greiðslubyrðin er lægri í upphafi lánstíma. Þegar vextir voru í lágmarki í faraldrinum voru hrein ný íbúðalán lánastofnana nær öll óverðtryggð og stærstur hluti með breytilegum vöxtum. Fljótlega fóru lántakar frekar að festa vexti á óverðtryggðum lánum en nú í haust virðist þróunin hafa snúist aftur í átt að verðtryggðum lánum. Meirihluti hreinna nýrra íbúðalána innlánastofnana var verðtryggður í október og með breytilegum vöxtum. Staðan er þó enn sú að meirihluti útistandandi íbúðalána alls, óháð lánveitanda, er óverðtryggður.