Vegan-veitinga­staður í Suður-Frakk­landi er nú sá fyrst sem að­eins býður upp á græn­ker­a­fæði til að vera veitt Michelin-stjarna í Frakk­landi.

Claire Vall­ey er eig­andi veitinga­staðarins Ona en hann er stað­settur í borginni Ares nærri Bor­deaux. Ona stendur fyrir Origine Non Anima­le á frönsku sem mætti þýða sem „upp­runi ekki frá dýrum“ á ís­lensku. Vall­ey opnaði veitinga­staðinn eftir að hafa safnað fjár­magni í hóp­fjár­mögnun og fengið lán frá grænum banka.

„Það er vegna þess að þið trúðuð á mig, á þetta brjál­æði sem nær fram yfir efa­semdir mínar, kvíða minn og hræðslu en líka vegna sam­eigin­legrar vinnu okkar síðustu fjögur ár sem við fengum okkar fyrstu stjörnu,“ segir Vall­ey í færslu á Face­book-síðu veitinga­staðarins.

Fékk einnig græna stjörnu

Auk þess að fá Michelin-stjörnu var Vall­ey einnig veitt græn stjarna sem Michelin kynnti í fyrra til að verð­launs veitinga­staði sem hafa lagt á­herslu á sið­ferði.

Í um­fjöllun breska miðilsins Guar­dian um málið kemur fram að á mat­seðli hafi verið sjö réttir áður en Vall­ey þurfti að loka vegna CO­VID-19. Þá segir að þegar hún hafi leitað til hefð­bundinna franskra banka í leit að láni fyrir opnun veitinga­staðarins hafi hún fengið þau svör að það væri of mikil ó­vissa í kringum vegan­isma og græn­ker­a­fæði al­mennt. Vall­ey er þó ekkert að pirra sig á því og segir að þar hafi allir bara verið að vinna vinnuna sína.

„Það sýnir að ekkert er ó­mögu­legt,“ segir hún um að henni hafi svo tekist að tryggja fjár­mögnun í gegnum grænan banka og hóp­fjár­mögnun.

Þrátt fyrir að vera á­litinn frum­kvöðull í græn­ker­a­fæði í Frakk­landi segir Vall­ey að hún hafi fylgt í fót­spor annarra og nefnir sem dæmi Jean-Christian Jury sem rak veitinga­staðinn Mano Ver­de í Ber­lín.

Hér að neðan má sjá færslu frá Vall­ey þar sem hún fagnar stjörnu­gjöfinni.

✨A VOTRE ETOILE !✨ C’est parce que vous avez cru en moi, en ce pari fou par-delà mes doutes, mes angoisses, mes peurs...

Posted by ONA restaurant gastronomique Bio&Vegan on Monday, 18 January 2021