Adalimumab er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan sem STADA markaðssetur samkvæmt samningi við Alvotech, sem sér um þróun og framleiðslu, en samstarf fyrirtækjanna nær alls til sjö líftæknilyfjahliðstæða sem ætlaðar eru til meðferðar við sjálfsofnæmissjúkdómum, augnsjúkdómum og krabbameini. Fyrirtækin stefna að því að geta boðið evrópskum sjúklingum og meðferðaraðilum þessi lyf hvert af öðru á næstu mánuðum og árum. Meðal þeirra hliðstæða sem samstarfið nær til er AVT04 (ustekinumab), en Alvotech kynnti nýlega niðurstöður rannsóknar sem sýndi sömu klínísku virkni líftæknilyfjahliðstæðunnar og samanburðarlyfsins Stelara®.

Hukyndra er hliðstæða líftæknilyfsins Humira® í háum styrk og sítratlausu lyfjaformi, sem verður í boði sem 100 mg/mL adalimumab í 40 mg/0.4 mL áfylltum lyfjapennum auk 40 mg/0.4 mL og 80 mg/0.8 mL lausnar í áfylltri sprautu. Með þessu aukast valkostir sjúklinga og meðferðaraðila. Hukyndra hefur verið þróað með það í huga að draga úr hættu á óþægindum sjúklinga á stungustað, með auknum styrk, sítratlausu lyfjaformi og lyfjapenna með mjórri nál.

Bryan Kim, framkvæmdastjóri sérlyfjadeildar STADA lýsti ánægju með þennan áfanga í samstarfinu og sagði: „Þótt líftæknilyfjahliðstæður hafi verið á markaði í Evrópu í rúm 16 ár, er enn mikil þörf meðal sjúklinga fyrir bætt aðgengi að þessum lyfjum, sem markaðurinn hefur ekki annað. Með því að nýta sérþekkingu Alvotech á sviði þróunar og framleiðslu og sterka stöðu STADA á Evrópumarkaði, getum við bætt hag sjúklinga og boðið breitt úrval líftæknihliðstæðulyfja í hæsta gæðaflokki.“

„Það er okkur mikil ánægja að taka þetta mikilvæga skref með STADA inn á markað í fjölmörgum Evrópulöndum. Samstarfið gerir okkur kleift að nýta til fulls styrkleika Alvotech, sem hefur byggt upp einstaka aðstöðu og sérhæft sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða, sem eru afar mikilvægar fyrir heilbrigðiskerfi um allan heim,“ sagði Anil Okay, viðskiptastjóri Alvotech.