Krónan opnar sína fyrstu verslun í miðbæ Reykjavíkur á næstu mánuðum. Rekstrarstjóri Krónunnar segir að framkvæmdir standi nú yfir í húsnæðinu en að verslunin verði komin í rekstur um mánaðamótin ágúst/september.

Festi sem er eigandi Krónunnar festi kaup á matvöruversluninni Super1 að Hallveigarstíg í miðbæ Reykjavíkur í lok maí síðastliðinn. Super1 lokaði verslun sinni á Hallveigarstíg þann 12. júlí.

„Við erum að taka allt í gegn og setja upp okkar verslun í húsnæðinu. Það eru miklar breytingar í gangi þannig þetta tekur allt sinn tíma. Ef að allt gengur eftir þá opnar verslunin í kringum mánaðamótin ágúst/september," segir Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar.

Höfðu haft augastað á húsnæðinu

Festi keypti verslun Super 1 í lok maí síðastliðinn og áformaði að reka verslun undir merkjum Krónunnar í húsnæðinu.

„Það hefur staðið til lengi að opna Krónuna í miðbænum. Við erum búinn að leita að húsnæði í 101 Reykjavík í talsvert langan tíma. Það var því kjörið tækifæri fyrir okkur að stökkva á þetta húsnæði þegar það bauðst. Þessi kaup skapa Festi tækifæri til að efla starfsemi Krónunnar og styrkja stöðu félagsins á höfuðborgarsvæðinu," bætir Kristinn við.

Festi sem er meðal annars eigandi N1 og Krónunnar, rekur 22 verslanir Krónunnar víðs vegar um landið. Verslunin á Hallveigarstíg verður því 23 verslunin.