Aftonbladet, eitt stærsta dagblað Svíþjóðar, fór jákvæðum orðum um jurtalyfið Glitinum frá íslenska lyfjafyrirtækinu Florealis í forsíðufrétt fyrr í vikunni. Um að ræða fyrsta jurtalyfið gegn mígreni sem er skráð sem lyf þar í landi.

Um ein milljón manna í Svíþjóð þjáist af mígreni og þau meðferðarúrræði sem hingað til hafa verið notuð til þess að fyrirbyggja mígreni eru lyfseðilsskyld lyf og breytingar á lífstíl. Þá kemur fram í frétt Aftonbladet að um fimmtán prósent Svía, eða um ein milljón manns, þjáist af mígreni.

Í greininni var leitað álits hjá sænsku lyfjastofnuninni um skráningu Glitinum sem lyf en þar var staðfest að þetta væri í fyrsta sinn sem jurtalyf gegn mígreni væri skráð þar í landi. Haft er eftir Per Cleason, sviðstjóra hjá sænsku lyfjastofnuninni, að skráning lyfsins hafi verið hefðbundin og að Florealis hafi þurft að leggja fram fullnægjandi gögn sem sanni gæði, virkni og öryggi lyfsins. Lyfjastofnunin gerði engar athugasemdir við þau gögn.

Sænsku höfuðverkjasamtökin fagna innkomu Glitinum á markaðinn þar sem einstaklingar með mígreni leiti yfirleitt lengi lausna við sínum einkennum. Það sé því vel þess virði að prófa jurtalyfið. „Það er mikil þörf á fleiri meðferðarmöguleikum,” segir til að mynda Helena Elliot hjá Huvudvärksförbundet.

Glitinum er mígrenilyf sem framleitt er af íslenska lyfjafyrirtækinu Florealis.

Glitinum er fyrsta jurtalyfið og þar að auki eina lyfið sem hægt er að fá án lyfseðils við mígreni á Norðurlöndum. Virka efni lyfsins glitbrá (feverfew) er vel þekkt fyrir að fækka mígreniköstum og lengja tímann á milli kasta. Ulf Frejvall, taugalæknir á höfuðverkjamóttökunni á Skåne í Svíþjóð, segir í frétt Aftonbladet að ýmsar meðferðir hafi reynst mígrenisjúklingum vel, svo sem líftæknilyf, góður svefn og reglulegt mataræði. Hann þekkir vel til notkunar á glitbrá við mígreni, til dæmis í Bandaríkjunum, og mælir með því að almenningur prófi Glitinum.

Florealis er íslenskt lyfjafyrirtæki sem þróar og markaðssetur fjölbreytt úrval jurtalyfja og lækningavara sem byggja á virkum náttúruefnum. Eru vörur fyrirtækisins skráðar og viðurkenndar hjá lyfjayfirvöldum á öllum Norðurlöndunum.