Al­þjóð­lega hótel­keðjan Hyatt Hot­els Cor­por­ation og Reitir fast­eigna­fé­lag hafa gert með sér samning um rekstur Hyatt Centric hótels að Lauga­vegi 176, í gamla sjón­varps­húsinu. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Reitum en gert er ráð fyrir því að hótelið opni árið 2022.

Í til­kynningunni kemur fram að húsið verði endur­byggt og stækkað þannig að það rúmi 169 her­bergi, fundar­sali, veitinga­stað, heilsu­rækt og skemmti­leg al­mennings­rými í anda Hyatt hótel­keðjunnar. Reitir stefna að því að halda eigninni í eigna­safni fé­lagsins til lengri tíma en selja rekstur hótelsins til traustra rekstrar­aðila.

Í til­kynningunni kemur fram að Hyatt centric vöru­merkið flokkast sem lífs­stíls­hótel þar sem á­hersla er lögð á að skapa skemmti­lega stemningu. Um er að ræða fyrsta hótelið á Norður­löndunum sem opnar undir vöru­merki Hyatt keðjunnar og sjöunda Hyatt Centric hótelið í Evrópu, en það vöru­merki hefur notið mikilla vin­sælda frá því það var fyrst kynnt. Hyatt Centric leggur á­herslu á hátt þjónustu­stig, vandað efnis­val, fal­lega hönnun og nú­tíma­leg her­bergi í háum gæða­flokki.

„Síðast­liðið ár höfum við lagt mikla vinnu í að kynna okkur Nor­ræna markaðinn og að kynnast þróunar­aðilanum og fast­eigna­eig­andanum á Ís­landi. Inn­koma okkar á markaðinn með Hyatt Centric Reykja­vík er því mikil­vægur á­fangi fyrir okkur. Opnunin ber ekki ein­göngu vitni um hinn mikla vöxt Hyatt þegar kemur að gæða­hótelum í Evrópu heldur styður hún einnig á­form okkar um að hasla okkur völl á mörkuðum þar sem svæðis­bundnir aðilar ráða ríkju,“ er haft eftir Peter Norman, fram­kvæmda­stjóra þróunar hjá Hyatt.

„Það er mjög á­nægju­legt að geta til­kynnt um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Ís­landi. Vöru­merkið er rót­gróið og þekkt um allan heim og við sjáum mikil tæki­færi fólgin í því að opna hótel í sam­starfi við slíkan aðila. Hyatt býr yfir gríðar­legri þekkingu og reynslu þegar kemur að hótel­þróun og rekstri sem við munum njóta góðs af í þessu verk­efni sem Reitir hafa á­kveðið að ýta úr vör. Hótel­keðja af þessari stærðar­gráðu hefur getu til þess að vekja at­hygli á Ís­landi sem ferða­manna­stað og auka þannig eftir­spurn ferða­manna til landsins. Koma Hyatt mun því í heild hafa já­kvæð á­hrif á ís­lenska ferða­þjónustu og hótel­markaðinn í Reykja­vík,“ segir Guð­jón Auðuns­son, for­stjóri Reita.