Fyrr­verandi úti­bús­stjóri Danske Bank í Eist­landi, sem var vitni í rann­sókn lög­reglunnar á peninga­þvætti í bankanum, fannst látinn nærri heimili sínu í Tallinn í Eist­landi.

Bankinn er til rann­sóknar í nokkrum löndum, þar á meðal Banda­ríkjunum, Dan­mörku, Bret­landi og Eist­landi, vegna grun­sam­legra greiðslna að and­virði 200 milljarða evra sem voru milli­færðar í gegnum úti­bú þeirra í Eist­landi á ára­bilinu 2007 til 2015.

Lög­reglan í Eist­landi hafði leitað banka­úti­bús­stjórans, Aivar Rehe, frá því á mánu­dag.

„Það eru engin merki um of­beldi á líkinu og það eru engin merki um slys … Það verður engin rann­sókn á málinu,“ sagði lög­reglan í yfir­lýsingu sem hún sendi frá sér í dag.

Fram kemur í um­fjöllun miðilsins Reu­ters um málið að tals­kona eist­neska sak­sóknarans hafi greint frá því að Rehe hafi verið vitni í peninga­þvættis­málinu.

Málið er frá því í desember í fyrra og snýr að tíu fyrr­verandi starfs­mönnum bankans sem eru taldir við­riðnir peninga­þvætti á allt að 300 milljónum evra.