Magnús Haf­liða­son hefur verið ráðinn for­stjóri Domino’s Pizza á Ís­landi. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fyrir­tækinu. Hann tekur við af Birgi Erni Birgis­syni sem hefur verið for­stjóri frá árinu 2011.

Magnús er ekki ó­kunnur fé­laginu eða vöru­merkinu en hann hóf fyrst störf árið 1999 sem pizza­sendill og hefur sinnt meira og minna öllum störfum innan fé­lagsins. Allt í allt telur reynsla hans hjá vöru­merkinu yfir 16 ár þar sem hann starfaði m.a. sem fram­kvæmda­stjóri Domino’s í Damörku 2006-2007, rekstrar- og markaðs­stjóri á Ís­landi 2011-2014, fram­kvæmda­stjóri Domino’s í Noregi 2014-2017 og sér­fræðingur í rekstar- og markaðs­málum á er­lendum mörkuðum Domino’s Pizza Group á árunum 2018-2019.

„Síðast­liðið ár hjá Sýn hefur verið lær­dóms­ríkt og gefandi. Það hefur verið frá­bært að kynnast fé­laginu og þeim góða hópi sem þar starfar. Ég óska þeim alls hins besta en nú liggur leiðin aftur „heim“ í pizza bransann.

Ég tek við keflinu af Birgi Erni sem ég þekki vel og leitt hefur fé­lagið af myndar­skap síðustu ár í gegnum mikla upp­byggingu og síðar á­skoranir tengdar Co­vid-19. Domino’s er vöru­merki með sterka stöðu á ís­lenskum veitinga­markaði og tryggan hóp við­skipta­vina. Ég hlakka til þess að komast í pizza­bransann á ný og vinna að enn frekari sigrum með ein­stöku teymi starfs­manna,“ er haft eftir Magnúsi.

Birgir Bielt­vedt leiðir hóp fjár­festa sem fest hafa kaup á Domino’s á Ís­landi:

„Það er virki­lega á­nægju­legt að fá Magnús með okkur í verk­efnið enda þekkir hann fé­lagið og sögu þess mjög vel. Hann hefur hald­góða reynslu af af Domino’s og þaul­vanur bæði rekstrar- og markaðs­málum vöru­merkisins hér og í Skandinavíu.“

Magnús er með MBA gráðu frá Há­skóla Ís­lands og starfar í dag sem for­stöðu­maður sam­skipta- og markaðs­sviðs Sýnar og mun sinna því starfi þar til nýr aðili hefur verið ráðinn.