Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri hjá DataLab, segir að stafvæðing (e. digitalization) og snjallvæðing sé vegferð sem öll fyrirtæki og stofnanir verði að ráðast í fyrr eða síðar.

„Þetta snýst ekki um að vera sprotafyrirtæki eða ungt fyrirtæki. Þetta snýst um rétta hugarfarið og að búa yfir ákveðinni aðlögunarhæfni. Fyrirtæki og stofnanir þurfa að hafa hraðar hendur og aðlaga sig sem fyrst breyttu umhverfi. Það er nauðsynlegt þar sem umhverfið er að breytast mjög hratt sökum tæknibreytinga og allir þeir sem ætla að vera með í leiknum eftir tíu ár þurfa bara að átta sig á möguleikum tækninnar og ráðast síðan í aðgerðir.“

Hann segir jafnframt að þróunin sé þegar byrjuð hér á landi.

„Það sem er að gerast hér á landi um þessar mundir er að íslensk fyrirtæki og stofnanir eru að leggja af stað í sömu vegferð og erlend fyrirtæki hafa gengið í gegnum. Það ferli snýst um að fjárfesta talsvert í stafrænum innviðum með því að stafvæða,“ segir Brynjólfur og bætir við að stafvæðingin hafi staðið yfir í um tvo áratugi.

„Það sem gerist í stafvæðingunni er að gögnin safnast upp og á einhverjum tímapunkti þá áttarðu þig á því að þú getur notað gögnin til að gera enn betur og í því felst svokölluð snjallvæðing sem er undirstaða samkeppnishæfni á komandi árum.Hægt er að nýta gögnin í alls kyns lausnum, meðal annars til að sérsníða notendaupplifun viðskiptavina og spá fyrir um ýmsa hegðun, draga úr sóun og óvissu, minnka áhættu, fá nýja innsýn og í raun styðja við ný og gagnadrifin viðskiptamódel. Þetta eru fá dæmi um hvernig má nýta gögn sem safnast saman á stafrænum innviðum.“

Hann bætir við að við eigum eftir að sjá meiri stafvæðingu og snjallvæðingu á komandi misserum.

„Við eigum eftir að sjá meiri stafvæðingu til dæmis í tengslum við innleiðingu 5G. Sem dæmi um snjallvæðingu má nefna Spotify en það fyrirtæki bjó til sinn platform, þar sem það að hlusta á tónlist var stafvætt, en þeir létu ekki staðar numið þar heldur notuðu gögnin til að búa til sérsniðna playlista fyrir fólk. Þeir ákváðu að snjallvæða sína þjónustu til að gera notendur enn ánægðari.Snjallvæðing er grundvöllurinn í samkeppnishæfni efnisveita. Þær sérsníða þjónustu sína að þörfum neytenda,“ segir Brynjólfur og bætir við að það sama gildi um netverslun.

„Netverslanir eru gott dæmi um geira sem hefur farið úr stafvæðingu yfir í snjallvæðingu. Með því að sérsníða upplifun að hverjum og einum notanda á grundvelli gagna með því að bjóða honum upp á vörur og þjónustu í takt við hans þarfir hverju sinni. Síðan bjóða þær oft góðum viðskiptavinum afslátt eða auka þjónustu á borð við fría heimsendingu eða eitthvað slíkt.“

Hann segir jafnframt að í kjölfar Covid hafi verið gefið verulega í hvað varðar fjárfestingar í stafrænum innviðum.

„Við sáum í Covid að þá spruttu upp ýmsar netverslanir og stafrænar þjónustulausnir og svo hefur island.is farið í þá vegferð að stafvæða þjónustu íslenska ríkisins og næsta skrefið er að nota gögnin til að gera enn betur. Ég sé líka fyrir mér að opinberar stofnanir muni hagnýta gögnin í meiri mæli í komandi framtíð til að þær geti sinnt hlutverki sínu betur og veitt betri þjónustu. Dæmi um það er til dæmis að sjálfvirknivæða eftirlit sem þær eiga að sinna og spá fyrir um þróun til að hægt sé að grípa inn í áður en það er orðið of seint.“

Ný löggjöf væntanleg

Brynjólfur segir að von sé á nýrri löggjöf og árið 2023 muni gervigreindarlöggjöf líta dagsins ljós.

„Árið 2018 var GDPR-löggjöfin innleidd en hún snerist um það hvernig mætti safna og vinna með persónugreinanleg gögn. Næst á dagskrá, líklega árið 2023, verður innleidd sambærileg löggjöf sem nefnist AI act, eða gervigreindarlöggjöfin, og hún mun skilgreina hvernig nýta megi gervigreindartækni eða eins og við köllum það gagnadrifnar og snjallar lausnir,“ segir Brynjólfur og bætir við að með þeirri löggjöf verði betur skilgreint hvað megi og hvað megi ekki gera.

„Markmiðið með þessum regluverkum er að verja borgarana gagnvart misnotkun á því hvernig tækninni er beitt. Því það er hægt að nýta þessa tækni gegn fólki eins og við höfum séð í gegnum tíðina. Til dæmis eins og upp hafa komið tilfelli á Facebook þar sem fólk var hvatt til að mæta ekki á kjörstað og fölskum upplýsingum viljandi haldið að því. Einnig má nefna notkun eftirlitsmyndavéla með andlitsgreiningartækni sem hefur verið afar umdeild. Þessi nýja löggjöf mun koma til með að skilgreina betur hvað má gera og hvað má ekki gera.“