Rafbílasamband Íslands segir tvennt ólíkt að tala um að skattleggja innflutning eða notkun rafbíla. Sambandið segir ekki annað séð en að þau fimm prósent vörugjöld sem ríkisstjórnin hyggst leggja á rafbíla sé neysluskattur sem ætlaður sé til þess að draga úr samkeppnishæfni rafbíla á markaðnum og með niðurfellingu á virðisaukaskattsívilnunum um mitt næsta ár sé alveg ljóst að hægja muni verulega á innkaupum fólks á rafbílum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá sambandinu vegna fyrirhugaðrar skattlagningu á vistvænum bílum sem boðuð er í nýju fjárlagafrumvarpi.

Tekjur ríkis fari minnkandi

Í Fjárlagafrumvarpinu kemur meðal annars fram að á næsta ári verði tekin skref í átt að nýju fyrirkomulagi af gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Mikill árangur hafi náðst í orkuskiptum fólksbílaflotans, auk þess sem bílar séu sífellt að verða sparneytnari.

„Samhliða því hafa tekjur ríkisins af ökutækjum og eldsneyti dregist verulega saman og myndu að óbreyttu halda áfram að lækka. Við því þarf eðli málsins samkvæmt að bregðast með nýjum lausnum, svo áfram með standa undir öflugu viðhaldi og uppbyggingu í samgöngukerfinu,“ segir meðal annars í frumvarpinu.

Ríkisstjórnin boðar fyrsta skrefið í aukinni skattheimtu á vistvæna bíla í frumvarpinu.

Rafbílasamband Íslands segir skattlagningu á innflutningi rafbíla og notkun ólíka, annað lendi á hinum fjársterku sem kaupa nýja bíla og hitt lendi á þeim fátækari sem keyri á notuðum bílum.

„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að 5% lágmarks vörugjöld munu leggjast á innflutning allra bifreiða og eins og komið hefur fram í fjölmiðlum þá þýðir þetta að rafbílar eru að fara að hækka í verði um a.m.k. 2 milljónir þegar 20.000 bíla markinu er náð um mitt næsta ár.

Fari beint í ríkissjóð

Mikil umræða hefur síðan verið um álag kílómetragjalds til að standa straum af kostnaði við vegagerð á Íslandi og ef fram heldur sem horfir þá styttist óðum í að það verði að veruleika. Það sem ráðherrum fjármála og innviða hefur tekist er að sannfæra þjóðina um að skattlagning á notkun ökutækja sé nauðsynleg til að viðhalda vegunum,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.

Þá skipti engu máli hvað skattarnir heiti, þeir fari ekki í vegakerfið heldur í ríkissjóð og sem dæmi tekur sambandið heilbrigðisþjónustuna. Almenningur sé ekki heilbrigðisskatt til að standa straum af heilbrigðiskerfinu.

Rarfbílasambandið segir Ísland langt á eftir Norðmönnum þegar kemur að hagkvæmu skattaumhverfi og innviðum fyrir rafbílavæðingu. Ríkisstjórnin þar í landi horfi öðrum augum á mikilvægi orkuskipta í samgöngum en þær ríkisstjórnir sem hafi verið við stjórn hér á landi síðastliðin fimm ár.