Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir að það hafi tekist á andstæðir pólar innan stjórnarinnar við mat á því hvort taka ætti þátt í hlutafjárútboði Icelandair en sjóðurinn var fyrir stærsti hluthafi flugfélagsins með tæplega 12 prósenta hlut.

„Við fulltrúar atvinnurekenda vorum samstíga í því að styðja þátttöku,“ útskýrir Guðrún.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins féll tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í útboðinu á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn. Ef tillagan hefði verið samþykkt hefði Lífeyrissjóður verslunarmanna verið með rúmlega 11 prósenta hlut í Icelandair í kjölfar útboðsins.

Guðrún sagðist hafa átt von á því að stjórnin, sem telur átta manns, myndi standa saman að því að verja störf félagsmanna og þá hagsmuni sem eru undir fyrir íslenskt efnahagslíf að tryggja rekstur Icelandair.

„Þarna er um að ræða lífsviðurværi þúsunda starfsmanna og starfsfólk Icelandair er einn stærsti greiðandi félagsgjalda til VR og þar með til lífeyrissjóðsins. Það kom mér því á óvart að það hafi verið fulltrúar atvinnurekenda í sjóðnum sem töluðu fyrir mikilvægi þess að verja störf félagsmanna en ekki fulltrúar launþegahreyfingarinnar,“ segir Guðrún.

Þá bendir hún að Icelandair sé ekki í „eigu kapítalista, sem til hafi staðið að bjarga, heldur sé félagið í meirihlutaeigu lífeyrissjóða, sem er þá óbeint eignarhald almennings. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur verið stór hluthafi í Icelandair í meira en 40 ár og við fulltrúar atvinnurekenda í stjórninni töldum eðlilegt að sjóðurinn myndi styðja áfram við félagið í gegnum þessa erfiðu tíma,“ segir Guðrún.

Það kom mér á óvart að það hafi verið fulltrúar atvinnurekenda í sjóðnum sem töluðu fyrir mikilvægi þess að verja störf félagsmanna en ekki fulltrúar launþegahreyfingarinnar.


Telurðu að fyrri yfirlýsingar Ragnar Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að sjóðurinn ætti að sniðganga útboð Icelandair hafi haft áhrif á niðurstöðuna?

„Það er ekki hægt að líta framhjá því að þann 17. júlí síðastliðinn gaf hann út yfirlýsingu í nafni stjórnar VR þar sem hann hvatti til þess að Lífeyrissjóður verslunarmanna myndi hafna þáttöku í útboðinu. Að baki þeirrar yfirlýsingar stóð meðal annars einn stjórnarmaður sjóðsins, en annar sat hjá. Þá sitja einnig tveir starfsmenn VR í stjórn lífeyrissjóðsins og þeir hljóta að lúta valdboði formanns stéttarfélagsins.

Það kann þess vegna að vera að það hafi mögulega haft áhrif á ákvörðun fulltrúa VR í stjórn sjóðsins án þess að ég geti fullyrt það,“ segir Guðrún.

Guðrún, ásamt Jóni Ólafi Halldórssyni og Árna Stefánssyni, er tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins og Guðný Rósa Þorvarðardóttir af Félagi atvinnurekenda. Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar sjóðsins og framkvæmdastjóri VR, Bjarni Þór Sigurðsson, Guðrún Johnsen og Helga Ingólfsdóttir eru hins vegar kjörin í stjórn sjóðsins af VR.

Birta lífeyrissjóður, sem var fimmti stærsti hluthafi Icelandair Group með rúmlega 7 prósenta hlut, tók heldur ekki þátt í útboðinu. Samstaða var um þessa ákvörðun bæði hjá starfsmönnum og stjórn eftir ítarlega skoðun á málinu.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, skilaði inn skuldbindandi tilboði upp á tvo milljarða í flugfélaginu, og Gildi lífeyrissjóður tók einnig þátt.

Útgefið hlutafé Icelandair, sem verður aukið úr 5,4 milljörðum í 28,4 milljarða í kjölfar útboðsins, mun þynnast niður í um 19 til 21 prósent og ef nýir fjárfestar félagsins nýta sér þau áskriftarréttindi sem fylgja með bréfunum, sem hægt verður að gera í einu lagi eða skrefum til allt að tveggja ára, þynnist eignarhlutur hluthafa niður í allt að 16 prósent.