Það er athyglisvert hvernig verðlagseftirlit ASÍ les í þessa stöðu þar sem því er haldið fram að álagning smásölufyrirtækja hafi aukist að undanförnu, án þess að sú fullyrðing hafi verið rökstudd með einhverjum hætti,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í samtali við Markaðinn.

„Verðlagseftirlit ASÍ hlýtur að gera sér grein fyrir því að þær gífurlegu, erlendu verðhækkanir sem fyrirtækin hafa verið að horfast í augu við að undanförnu, hafa áhrif hér á landi.“

Í greiningu sem Jakobsson Capital sendi frá sér í vikunni var fjallað um ummæli „hagsmunaaðila“ í fréttum fyrr í þessum mánuði þar sem því var haldið fram að álagning smásölufyrirtækja hefði hækkað.

Undanfarna mánuði hafa Samtök verslunar og þjónustu orðið vör við óvenju miklar áhyggjur hjá aðildarfyrirtækjum sínum vegna tilkynninga sem þau hafa fengið frá erlendum birgjum um hækkanir á hrávöruverði.

„Þessu til viðbótar fór á sama tíma að bera á gífurlegum hækkunum á flutningskostnaði sem einkum var rakinn til hækkunar á flutningskostnaði frá Kína til Evrópu, en þar eru sjö stærstu hafnir heimsins og Kína stendur fyrir meira en fjórðungi af allri iðnaðarframleiðslu í heiminum.“

„Það er ekki auðvelt að átta sig á hversu langvarandi þessi mikla hækkun getur orðið.“

Eins og fram kemur í greiningu Jakobsson Capital þá er verð allra hrávara nú hærra en það var fyrir faraldur og Alþjóðabankinn er þeirrar skoðunar að verð hrávara hvers konar eigi enn eftir að hækka umtalsvert áður en markaðurinn nær jafnvægi á ný.

„Þegar svo stór hluti af iðnaðarframleiðslu heimsins fer fram í Kína eins og raun ber vitni, hefur sú gífurlega hækkun sem orðið hefur á flutningskostnaði þaðan augljóslega mikil áhrif,“ segir Andrés.

„Það sem verra er að það er ekki auðvelt að átta sig á hversu langvarandi þessi mikla hækkun getur orðið. Það liggur fyrir að í kjölfarið á faraldrinum var umtalsvert magn flutningaskipa sett í niðurrif, þar sem almennt var búist við að eftirspurn myndi dragast saman eftir að faraldurinn skall á. Þetta hefur ekki gengið eftir og enn öflug eftirspurn víða ekki síst í Evrópu, samhliða mun minna flutningsrými á flutningaleiðinni milli Kína og Evrópu. Þá jók mun lengri umskipunartími vara enn á þennan vanda og svo bætti lokunin á Súez-skurðinum ekki úr skák.“

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Fréttablaðið/Valli

Andrés segir að líkja megi markaði með flutningaskip við fasteignamarkaðinn þar sem byggingartími flutningaskipa er álíka langur og byggingartími fasteigna. Út frá því megi álykta að það muni taka töluverðan tíma fyrir markað með flutningaskip að ná jafnvægi, með tilheyrandi þrýstingi á flutningskostnað.

„Þessi staða veldur miklum áhyggjum þar sem hún mun áfram setja þrýsting á verðlag hér á landi. En hér er um aðstæður að ræða sem við höfum fá eða engin vopn til að bregðast við, þar sem þetta eru allt atburðir sem eru utan okkar áhrifasvæðis ef svo má segja.“

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að í greiningu Jakobsson Capital hefðu verið rifjuð upp ummæli "forsvarsmanna ASÍsem hefðu haldið því fram að álagning smásölufyrirtækja hefði hækkað. Hið rétta er að vísað var til ummæla "hagsmunaaðila."