Bæði fulltrúar minnihluta og meirihluta í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, furða sig á hversu illa gengur að ná samningum milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands, enda séu hagsmunir starfsmanna og fyrirtækisins sjálfs samofnir í samningaviðræðunum. Willum Þór Þórsson, nefndarmaður og þingmaður Framsóknarflokksins, segir að það komi mjög á óvart að kjaradeila Icelandair við flugfreyjur hafi reynst svo langdregin.

„Þetta kemur á óvart. Auðvitað er skiljanlegt að fólk vilji bæta sín kjör, en ég hélt að þessar samningaviðræður myndu ganga miklu greiðar fyrir sig en raun ber vitni. Að félagið eigi sér framtíð eru hinir sameiginlegu hagsmunir deiluaðila í þessu máli,“ segir Willum í samtali við Markaðinn.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng: „Ég skil ekki hvers vegna það hefur verið svona erfitt að ná niðurstöðu í kjaradeilu þar sem fyrirtækið er að berjast fyrir lífi sínu á sama tíma.“

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segist vonast til að deiluaðilar nái sáttum sem fyrst, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um kjaraviðræðurnar.

Fram hefur komið að WOW Air var með samninga við sínar flugfreyjur, sem voru um 30 prósentum hagstæðari en samningar Icelandair. Forsvarsmenn hins nýstofnaða Play hafa svo lýst því yfir að samningar við flugfreyjur og flugþjóna séu um 27 prósentum lægri en samningar Flugfreyjufélags Íslands við Icelandair.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, birti grein á vefsíðu samtakanna í vikunni þar sem sagði að flugfélög í Evrópu hefðu mörg hver breytt kjarasamningum til að bregðast við tekjufalli síðustu mánaða. Voru þar nefnd flugfélögin SAS, Finnair og British Airways. „Það hlýtur að gefa augaleið að Icelandair getur ekki staðið undir því að borga mun hærri laun en samkeppnisaðilar fyrir sömu störf,“ skrifaði Ásdís.


Andvíg eignarhaldi ríkisins


Óhyggilegt væri ef hið opinbera tæki að sér leiðandi hlutverk við endurreisn Icelandair, að mati nefndarfólks sem Markaðurinn ræddi við. Beinn eignarhlutur ríkisins á hlutabréfum í Icelandair væri „versta hugsanlega niðurstaða,“ að mati Óla Björns. Fulltrúar minnihlutans í nefndinni segja að allt annað yrði að reyna, áður en ríkissjóður tæki við eignarhaldi á félaginu, sem væri síður en svo ákjósanlegt.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Fréttablaðið/Ernir

„Það verður hvorki gott fyrir ferðaþjónustuna né skattgreiðendur ef ríkið eignast Icelandair,“ segir Óli Björn. Hann nefnir einnig að það kunni að vera skynsamlegt að ríkið veiti einhvers konar ábyrgðir eða víkjandi lán, en ekki sé tímabært að leggja slíka valkosti á borðið núna. Hlutafjárútboð félagsins muni fara fram í næsta mánuði. Fyrir það þurfi að leysa úr útistandandi málum.

Oddný tekur í svipaðan streng og segir að sér hugnist það illa að ríkið taki yfir eignarhald á félaginu í núverandi mynd. „Mér fyndist ómögulegt ef ríkið færi að setja fé inn í einhverja skuldahít,“ segir hún, en bætir þó við að það sé mikils virði að til sé flugfélag í eigu Íslendinga með höfuðstöðvar hér á landi.

Mér fyndist ómögulegt ef ríkið færi að setja fé inn í einhverja skuldahít.

„Ég hef talað fyrir því að hið opinbera kæmi þá frekar að rekstri nýs flugfélags. Ríkið gæti þá leigt vélar og starfsfólk af Icelandair og haldið uppi lágmarksflugsamgöngum á meðan Icelandair finnur út úr sínum málum,“ segir Oddný: „Það væri í það minnsta einnar messu virði að ræða slíkan valkost.“

Undir lok mars gerði Icelandair samning við ríkið um að halda úti vikulegu flugi til Boston, London og Stokkhólms. Sá samningur var svo framlengdur nokkrum sinnum, með ákveðnum breytingum. Oddný segir að skynsamlegt gæti verið að festa slíkt samstarf um lágmarkssamgöngur í sessi með lögum, ef ekki tekst að endurfjármagna félagið.

Willum nefnir að hingað til hafi ríkisstjórnin tekið skynsamlega á málum tengdum Icelandair, með því að halda sig til hlés þar til öll óleyst mál félagsins hafi verið leidd til lykta með einum eða öðrum hætti: „En það er ekki raunhæft að ríkið standi í rekstri á flugfélagi,“ segir Willum.