Íslendingar á Alicante svæðinu á Spáni furða sig á háu verði á flugmiða í flugferð fyrir Íslendinga sem vilja hraða sér heim til Íslands sem Icelandair hefur boðið uppá á morgun. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, segir í samtali við Fréttablaðið að verðið skýrist af því að vélinni sé flogið tómri út í eina ferð. Uppselt er í ferðina og skoðar Icelandair valmöguleikann á frekari flugi.
Icelandair kannaði áhuga á fluginu í dag á Facebook, nú þegar Spánn er skilgreindur sem hááhættusvæði vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Miðar fóru svo í sölu síðar í dag en þá runnu á marga tvær grímur. Miðinn kostar 81.480 krónur og gátta einhverjir sig á verðlaginu á Íslendingahópi í Alicante á Facebook.
„Fyrir okkur 6 tæp hálf milla held bara ekki hjón með 4 börn,“ skrifar Aníta Gunnarsdóttir Skjóldal inni á hópnum Íslendingar á Spáni Costa Blanca Svæðinu. „Þetta sæti er dýrara en Saga Class,“ skrifar Lára Ólafsdóttir. Þá svara margir Facebook færslu flugfélagsins.
„Ég á ekki 160 þusund aukalega til að koma mer og manninum minum heim. Bið frekar 12 dsga og kemst a minum miðum heim ! Mer finnst þetta ekki gott tilboð ef tilboð gæti kallast! takk fyrir pent,“ skrifar Gréta Baldursdóttir.
„Við könnuðum áhuga Íslendinga sem dvelja á Alicante svæðinu á sérstöku heimflugi á morgun, 16. mars. Vélin fer tóm út frá Keflavík á morgun og er flugið áætlað frá Alicante kl. 18:45 annað kvöld. Uppselt er í flugið,“ segir Ásdís. Verið sé að kanna hvort eftirspurn sé eftir frekari sætum.
Verðið skýrist af því að um sé að ræða flug fram og til baka, þar sem flogið sé með tóma vél út í þeim eina tilgangi að sækja viðkomandi hóp.
Aðspurð hvort að áhöfn flugvélarinnar muni þurfa að sæta sóttkví segir Ásdís svo ekki vera. „Samkvæmt leiðbeiningum frá sóttvarnarlækni á áhöfnin ekki að þurfa að fara í sóttkví.“

