Skiptastjórar WOW air hafa til skoðunar að krefjast endurgreiðslu á þeim kostnaði sem féll til vegna fasteignar Skúla Mogensen í London. Mögulega sé um að ræða ólögmæt hlunnindi.

Í skýrslu Deloitte, sem kynnt var á kröfuhafafundi WOW air nú klukkan 13, kemur fram að eitt af dótturfélögum WOW hafi verið WOW air Ltd í Englandi. Skúli Mogensen var upphaflegur eigandi þess félags en félagið var framselt til WOW í september 2018. Starfsemi félagsins fólst aðallega í leigu á íbúð í London.

Frá kröfuhafafundinum, sem hófst klukkan 13.
Fréttablaðið/Ernir

„WOW air virðist hafa greitt 37 milljónir vegna þessarar íbúðar frá 28. mars 2017 til úrskurðardags. Enginn samningur var í gildi á milli WOW og WOW Ltd vegna þessarar íbúðar og þá voru greiðslur WOW vegna hennar ekki samþykktar í stjórn félagsins,“ segir í samantekt á skýrslu skiptastjóra.

Deloitte telur líkur á að greiðslur WOW vegna reksturs og leigu fyrrgreindrar íbúðar hafi ekki verið reistar á viðskiptalegum forsendum. Engar vísbendingar séu um að íbúðin hafi verið nýtt í þágu starsfmanna WOW, hvorki flugfólks né annarra starsmanna. Íbúðin hafi „fyrst og fremst verið notuð af forstjóra og endanlegum eiganda félagsins.“

Deloitte telur ástæðu til að skoða hvort að um sé að ræða ólögmæt hlunnindi sem þrotabúið getur krafist endurgreiðslu á.