Fundir með innlendum fjárfestum vegna áformaðs hlutafjárútboðs og skráningar Íslandsbanka á markað munu hefjast í næstu viku. Búið er að boða meðal annars lífeyrissjóði og sjóðastýringarfélög til fundar þar sem Birna Einarsdóttur, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri bankans, ásamt ráðgjöfum munu halda frumkynningar fyrir fjárfesta á bankanum, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Þetta er í fyrsta sinn sem slíkir fjárfestafundir eru haldnir eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ákvað að hefja formlega sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka í lok janúar, en markmið þeirra er meðal annars að fara yfir rekstur bankans, áætlanir stjórnenda og leitast eftir sjónarmiðum fjárfesta í aðdraganda hlutafjárútboðs.

Áformað er að selja á bilinu 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í gegnum útboð og skráningu á markað um mitt þetta ár. Bókfært eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum í árslok 2020.

Hollenski bankinn ABN Amro er stjórnendum Íslandsbanka til ráðgjafar við söluna. Bankasýslan, sem heldur utan um eignarhlut ríkisins í bankanum, réð hins vegar STJ Advisors sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa vegna hlutafjárútboðsins auk þess sem Citigroup, JP Morgan og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru ráðnir sem leiðandi umsjónaraðilar og söluráðgjafar.