Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að ekki sé víst að sóttvarnaraðgerðirnar sem nú eru verði langvarandi ástand. Þetta sagði hann í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður í kvöld klukkan 19:00 á Hringbraut.

Aðspurður hvort tilkoma Ómíkron afbrigðisins með tilheyrandi sóttvarnaraðgerðum muni hafa það í för með sér að tekjur ríkisins verði minni heldur en gert var ráð fyrir í fjárlagaáætlun segir Bjarni að hann voni að ástandið muni ekki vara svo lengi.

„Ég veit ekki hvaða áhrif þetta mun hafa. Ég vona að þetta verði ekki mjög langvarandi ástand. Maður bindur vonir til þess að þar sem þessi veira smitast hraðar þá komi í ljós að fólk verði ekki jafn veikt og þá getur verið að við séum að sjá upphafið á endanum,“ segir Bjarni og bendir á að það sé þó staðreynd að ef veiran taki yfir allt og lama stóran hlut af starfsemi muni það birtast í tekjum ríkisins.

„Ef það verður raunin þá mun það birtast í tekjum ríkisins en einnig á gjaldahliðinni og mun birtast í breyttri afkomu. En ég trúi ekki að það muni raungerast og hef enga ástæðu til að það verði niðurstaðan. Ef aftur á móti þetta gengur hratt yfir þá er ég fullviss um að íslenskt efnahagslíf muni taka hratt við sér. Ég hef til að mynda gríðarlega trú á ferðaþjónustunni og er einnig bjartsýnn fyrir hönd annarra geira.“

Í þættinum var jafnframt rætt um fjárlögin, kjaramálin og stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.