Opinbert er nú að tveir hópar hið minnsta hyggja á stofnun flugfélags á rústum WOW air. Annar hópurinn hefur keypt eignir úr þrotabúi WOW, en hinn er meðal annarra skipaður gömlum stjórnendum flugfélagsins.

Tíminn mun leiða í ljós hvort báðum takist ætlunarverkið. Flest bendir þó til þess að tilraunir Oasis Aviation Group, sem er í eigu bandarísku kaupsýslukonunnar Michele Ballarin, séu trúverðugar. Félagið hefur að minnsta kosti lagt til þá fjármuni sem til þarf til að kaupa eignir WOW, en slíkt gerir fólk varla nema gamninu fylgi alvara. Þá hefur WAB Air sótt um flugrekstrarleyfi og forsvarsmenn þess hljóma kokhraustir í fjölmiðlum.

Flest bendir því til þess að hér verði starfrækt eitt lággjaldaflugfélag hið minnsta sem vonandi mun veita Icelandair verðuga samkeppni. Auðvitað er það lífsspursmál fyrir neytendur að hér bjóðist annar valkostur en Icelandair. Hver einasti landsmaður hefur fundið fyrir brotthvarfi WOW, og landsmenn orðið áþreifanlega varir við það hversu mikið lífsspursmál flugsamgöngur á viðráðanlegu verði eru fyrir eyjarskeggja.

Mestur akkur væri þó auðvitað í nýju flugfélagi fyrir hagkerfið í heild. Aukið framboð flugsæta þýðir auðvitað ekki annað en aukinn fjöldi ferðamanna. Nýtt flugfélag myndi flýta fyrir því að landið taki að rísa á ný eftir brotlendingu WOW.

Hvað Icelandair varðar er augljóst að markaðurinn telur nýtt flugfélag til válegra tíðinda. Bréf í Icelandair hafa enda lækkað skarpt eftir að fréttir tóku að berast af nýjum keppinautum. Icelandair hefur þó reynt að senda jákvæð merki út á markaðinn. Nú síðast enn eina tilkynninguna um sölu hótela félagsins, en kaupsamningur virðist þó háður fjölda fyrirvara.

Meira virðist þurfa til svo að markaðurinn öðlist tiltrú á Icelandair. Eins og svo mörg flaggskipsflugfélög glímir félagið við fortíðarvanda, til dæmis hvað launakostnað varðar, sem varla verður bætt úr með neinum kattarþvotti.Eitt er víst. Flugsaga Íslands hefur hvergi nærri verið skrifuð.