Frumtak Ventures hefur lokið við fjármögnun og stofnun nýs vísisjóðs, Frumtaks III, sem er sjö milljarðar að stærð. Ásthildur Otharsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Marels, stýrir sjóðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Frumtak III mun fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni fjárfesta í átta til tíu fyrirtækjum fyrir um 200-500 milljónir í hverju félagi. Fjárfestingatímabil sjóðsins er fimm ár og starfstími tíu ár.

Frumtak Ventures rak fyrir tvo vísisjóði, Frumtak og Frumtak II. Fyrsti sjóðurinn var stofnaður árið 2009 og hafa sjóðirnir fjárfest í 21 fyrirtæki frá stofnun. Þeirra á meðal eru Controlant, Meniga, Sidekick, Valka og DataMarket. Hagnaður vísisjóða Frumtaks á árinu 2020 nam samanlagt 2,2 milljörðum.