Vísisjóðurinn Frumtak fjárfesti í hugbúnaðarfyrirtækinu Ankeri Solutions fyrir tvær milljónir evra, jafnvirði um 300 milljóna króna, í því skyni að styðja við vöxt félagsins. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Hermann Kristjánsson fjárfestu í Ankeri árið 2018.

Ankeri hefur þróað hugbúnað sem tvinnar saman hagsmuni eigenda og leigjenda skipa með bættri upplýsingagjöf, betri orkunýtingu og minni útblæstri skipaflotans. Þannig leggur Ankeri sitt af mörkum í grænni þróun og orkuskiptum heimsflotans.

„Um 90 prósent af öllum vörum í heiminum eru á einhverjum tímapunkti flutt með skipum. Flutningaskipaiðnaðurinn er stór og alþjóðlegur en eftirbátur annarra þegar kemur að stafrænni þróun og sjálfvirknivæðingu í rekstri. Við leysum þarfir viðskiptavina okkar með skýjalausnum sem tryggja þeim samstundis aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum til ákvarðanatöku og aukum þannig skilvirkni starfseminnar,“ segir Kristinn Aspelund, framkvæmdastjóri Ankeris og annar stofnandi fyrirtækisins.

„Í dag er Ankeri notað fyrir um 10 prósent allra gámaskipa í heiminum og við ætlum að ná 20-30 prósenta markaðshlutdeild á næstu tveimur til þremur árum,“ bætir hann við.

Kristinn bendir á að nokkur af stærstu gámaskipafélögunum eigi um tíu prósent flotans hvert, en í heiminum séu alls um sex þúsund gámaskip. Stærsti viðskiptavinur Ankeris, Hapag-Lloyd, sé til að mynda með um sjö prósenta hlutdeild með um 250 skip í rekstri. Reiknað er með að tekjur félagsins hafi tífaldast árið 2023 miðað við árið í ár. „Þegar fram í sækir munum við einnig horfa til annarra tegunda flutningaskipa en í heildina eru um 50 þúsund flutningaskip í heiminum,“ bætir Kristinn við.

Hann segir að algengt sé að skipafélög eigi um helming flotans sem þau noti og leigi hinn helminginn til að stuðla að sveigjanleika í rekstri. Hugbúnaður Ankeris aðstoði við að taka betri ákvarðanir um leigu á skipum. Með aðgengi að réttum upplýsingum geti félögin náð fram verulegum sparnaði í rekstri.

Leifur Kristjánsson, tæknistjóri og hinn stofnandi Ankeris, segir að fram að þessu hafi fyrirtæki sem eigi skip ekki haft næga hvata til að fjárfesta í tækni til að draga úr olíunotkun. Leigutakar greiði fyrir olíunotkun en eigandi skipanna sjái um annan rekstur á leigutímanum.

„Við höfum safnað saman miklu magni af upplýsingum um skipin, til dæmis stærðum, hvað þau rista djúpt og olíunotkun, sem auðveldar leigutökum valið á hagkvæmum skipum fyrir þau verkefni sem þau eru ætluð í,“ segir hann. Kerfið mæli með hagkvæmasta skipinu fyrir tiltekna flutninga og haldi utan um rekjanleika í samningum. Leifur segir að á samningstímanum varpi kerfið ljósi á gæði upplýsinganna sem veittar voru og auki þannig gagnsæi á markaðinum.

Kristinn segir að keppinautar Ankeris séu fyrst og fremst Microsoft Excel og Microsoft Outlook. „Stafræn þróunin hefur verið hæg í skipaflutningum,“ segir hann.

Spurður hvaða hindranir hafi verið í vegi frá stofnun segir Kristinn að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi gert skipafyrirtæki ákvarðanafælin og því hafi það tekið lengri tíma að vinna mögulega viðskiptavini á sitt band.

„Við sjáum nú skýr merki um að fyrirtæki eru aftur komin í framkvæmdahug eftir að óvissan hefur minnkað. Rekstur skipaflutningafyrirtækja hefur tekið umtalsverðum breytingum að undanförnu. Markaðurinn tekur nú skýjalausnum opnum örmum og fyrirtækin hafa úr meiri fjármunum að moða eftir að verð á flutningum hækkaði vegna skorts á skipum til flutninga í Covid-19 og olíuverð lækkaði,“ segir hann.

Nýta hlutafjáraukninguna til að allt að þrefalda starfsmannafjöldann

Kristinn segir að hlutafjáraukningin verði nýtt til að tvö- til þrefalda starfsmannafjöldann á næstu tólf mánuðum. Þeir séu nú fimm. Annars vegar verði ráðið fólk til að sinna sölu og markaðssetningu og hins vegar í vöruþróun.

„Tekjurnar eru nú nálægt því að standa undir rekstri félagsins miðað við núverandi umfang. Þeim áfanga var því náð snemma á þroskaferli félagsins,“ segir hann.

Leifur segir að þar skipti sköpum að stjórnvöld juku endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar í 35 prósent. „Það gaf okkur færi á að halda áfram sókninni. Það er mikilvægt að sá stuðningur haldi áfram og geri okkur kleift að stunda vöruþróun hér á landi,“ segir hann.

Aðspurður segir Kristinn að í raun væri ákjósanlegast að reka fyrirtæki eins og Ankeri í hafnarborg á borð við Hamborg eða Singapúr til að vera í návígi við viðskiptavini. „Við stefnum að því að opna söluskrifstofur erlendis til að vera nær okkar viðskiptavinum,“ segir hann.

Frumtak fjárfest í 22 félögum

Frumtak hefur fjárfest í 22 félögum frá árinu 2009, meðal annars Controlant, Sidekick Health, Meniga og Kaptio. Sjóðirnir fjárfesta í félögum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum.