Fjárfestingafélagið Frumtak Ventures, sem rekur tvo vísissjóði, skoðar nú að minnka eignarhlut sinn í íslenska hátæknifyrirtækinu Controlant um meira en helming og hefur boðið rúmlega ellefu prósenta hlut í félaginu til sölu. Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með söluferlinu, samkvæmt heimildum Markaðarins, en Frumtak er í dag stærsti hluthafinn með samanlagt nærri fjórðungshlut í gegnum tvo sjóði – Frumtak I og Frumtak II.

Í nýafstöðnu hlutafjárútboði Controlant í september, þar sem félagið sótti sér yfir tvo milljarða króna, var fyrirtækið metið á um 13 milljarða króna. Miðað við það má áætla að ellefu prósenta hlutur Frumtaks, sem er í gegnum sjóðinn Frumtak I, sé um 1.500 milljóna króna virði. Frumtak fjárfesti fyrst í Controlant árið 2011.

Vöxtur Controlant hefur verið mikill að undanförnu en fyrirtækið hefur þróað hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnir til að fylgjast með vörum í flutningi og halda uppi rauntímaeftirliti á allri virðiskeðjunni, svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu vörunnar hvar sem er í heiminum. Á grunni þeirrar tækni hefur Controlant meðal annars samið við lyfjarisann Pfizer sem nýtir tækni íslenska fyrirtækisins við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 en það þarf að flytja og geyma í djúpfrosti, um mínus 80 gráðum, og þolir ekki nema nokkra daga utan þess.

Mikil eftirspurn hefur verið á meðal fjárfesta eftir að koma að fjármögnun félagsins en frá stofnun hafa þeir lagt því til alls um sex milljarða króna. Í haust lögðu stjórnendur Controlant upp með að sækja einn milljarð króna í aukið hlutafé en niðurstaðan varð sú að félaginu bárust áskriftir að fjárhæð rúmlega tveir milljarðar. Var útboðið því stækkað í samræmi við þá eftirspurn en tryggingafélögin Sjóvá og VÍS voru á meðal stofnanafjárfesta sem komu nýir inn í hluthafahóp Controlant eftir hlutafjáraukninguna.

Velta Controlant í fyrra nam um 400 milljónum króna og stefnir í að verða um einn milljarður á þessu ári. Í viðtali við Markaðinn í september sagði Guðmundur Árnason, fjármálastjóri fyrirtækisins, að miðað við þá samninga sem Controlant hefðu gert væri útlit fyrir að tekjur félagsins yrðu um 4 til 5 milljarðar á næsta ári. Starfsmenn fyrirtækisins eru í dag um 100 talsins en verða líklega nærri 200 í lok næsta árs.