75 prósent frumkvöðla í nýsköpun eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart framtíð nýsköpunar á Íslandi. Engu að síður telur meirihluti svarenda að Ísland sé ekki góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti eða alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Þetta kemur fram í könnun Gallups, Northstack og Tækniþróunarsjóðs.

Að því sögðu er 60 prósent svarenda annað hvort nú þegar starfandi á erlendum mörkuðum eða stefna þangað á næstu tólf mánuðum. 7,4 prósent svarenda sjá ekki fyrir sér að sækja á erlenda markaði.

56 prósent svarenda voru mjög eða frekar ósammála um Ísland væri góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti en 18,2 prósent svarenda töldu að Ísland væri ákjósanlegt land fyrir slík fyrirtæki.

52,9 prósent voru mjög eða frekar ósammála því að Ísland væri góður staður fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. 18,2 prósent voru hins vegar mjög eða frekar sammála því að Ísland væri góður staður fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki.

Gallup

Fá betri sýn á starfsumhverfi frumkvöðla

Markmið verkefnisins var að fá betri sýn á umhverfi frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja. Úr varð að úrtakið yrði umsækjendur í Tækniþróunarsjóð, síðust þrjú ár fyrir framkvæmd könnunarinnar. Á þremur árum sóttu 753 kennitölur um styrk úr mörgum atvinnugreinum. Flestir svarendur voru með færri en tíu starfsmenn og hefðu fengið minna en 4,5 milljónir króna í fjármagn. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið styrkti verkefnið um 850 þúsund krónur.

„Það hefur ekki verið gerð svona viðamikil könnun um umhverfi nýsköpunar á Íslandi að mér vitandi,” segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, stofnandi Northstack. „Við ákváðum að gefa aðgang að gögnunum frjálsan og geta allir skoðað niðurstöðurnar á Nyskopunarlandid.is.”

„Það hefur ekki verið gerð svona viðamikil könnun um umhverfi nýsköpunar á Íslandi að mér vitandi,” segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, stofnandi Northstack.

Fram kemur í könnunni að 73,5 prósent svarenda töldu það að hafa séríslenskan gjaldmiðil hafi mjög eða frekar neikvæð áhrif á rekstur síns fyrirtækisins en 20,4 prósent töldu það engin áhrif hafa. Enn fremur telur rúmur meirihluti eða 61 prósent svarenda þá bankaþjónustu sem í boði sé á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Með hátt hlutfall erlendra sérfræðinga í vinnu

Tæplega 40 svarenda töldu gott eða mjög gott aðgengi að innlendum mannauði með rétta reynslu og þekkingu. Athygli vekur að rúmlega 60 prósent töldu gott eða mjög gott aðgengi að erlendum mannauði með rétta reynslu og þekkingu. En erlendir sérfræðingar störfuðu hjá rúmlega 40 prósent fyrirtækja í úrtakinu. Engu að síður vissi rúmlega helmingur eða 51,2 prósent ekki að erlendir sérfræðingar sem flytja til Íslands eigi möguleika á skattaafslætti.

Gallup

Þá vissu 22,8 prósent prósent ekki af skattafrádrætti vegna kostnaðar tengdum rannsóknum og þróun.

Meirihluti eða 65,6 prósent svarenda telja erfitt eða mjög erfitt að fjármagna fyrirtækið með aðkomu innlendra fjárfesta. Vandinn felst í hve fjárfestar eru fámennur hópur, hve óþolinmótt/áhættufælið fjármagnseigendur eru og erfitt aðgengi að fjárfestum.