Að safna fé frá fjárfestum fyrir líftæknifyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref getur verið þrautaganga fyrir stofnendur og stjórnendur þeirra og valdið mikilli gremju. Oft er erfitt að vekja athygli á fyrirtækinu á meðal fjárfesta sem eru störfum hlaðnir og skoða urmul af fjárfestingartækifærum. Þegar fjárfestar með þekkingu á viðfangsefninu ganga loks í hluthafahópinn getur tengslanet þeirra og sérþekking skipt sköpum fyrir framgang fyrirtækisins.

Þetta segir Eugen Steiner, læknir og fjárfestir í líftæknifyrirtækjum, sem hefur komið að stofnun fjölda sprota á því sviði, í samtali við Markaðinn. Hann flutti erindi á ráðstefnu á vegum Alvotech fyrir skemmstu.

„Ég myndi fara varlega í sakirnar í að hafna tilboði um fjármagn í líftæknifyrirtæki sem er að stíga sín fyrstu skref jafnvel þótt verðlagning á fyrirtækinu sé lægri en vonir stóðu til,“ segir hann. Á því stigi eru fyrirtækin hvorki með vöru til reiðu til að selja né með tekjur.

Eugen Steiner, læknir og fjárfestir í líftæknifyrirtækjum.

Steiner segir að stjórnendur sprota hugsi oft að þeir geti fengið betra verð fyrir fyrirtækið ef fjármagn yrði sótt á seinni stigum fremur en snemma í ferlinu. „Vandinn er að á seinni stigum þarf að takast á við nýjar áskoranir og annars konar óvissu. Ekki er hægt að vita fyrir fram hver niðurstaða rannsókna verður og mögulega verða þær ekki jafn hagfelldar og vonir stóðu til,“ segir hann og bætir við að aldrei sé að vita hvað keppinautar taki til bragðs í millitíðinni.

„Gott dæmi um óvissuna er að tíu dögum áður en netbólan sprakk árið 2001 fékk sprotafyrirtæki fjármagn. Líftæknifyrirtæki sem þurftu á fjármagni að halda eftir netbóluna stríddu við mikinn vanda,“ bendir hann á.

Steiner nefnir sömuleiðis að í rekstraráætlunum sé góð þumalputtaregla að tvöfalda fjárhæðina sem þarf. „Áætlanir eru alla jafna alltof bjartsýnar og fyrirtækin þurfa á meira fé að halda en gert var ráð fyrir,“ segir hann.

Þriðja ráðið sem Steiner hefur til frumkvöðla er það sem hann kallar gullnu regluna. „Sá sem á gullið semur reglurnar,“ segir hann. „Það þýðir í raun að sá sem hefur fulla vasa fjár er í mun betri aðstöðu til að semja með hagfelldum hætti. Vísisjóðir sem hafa nýlega sótt fé ná betri samningum þegar fyrirtæki eru keypt en sjóðir sem eiga lítið eftir af lausafé í bankanum. Sömu sögu er að segja af fyrirtækjum. Fyrirtæki sem eru vel fjármögnuð eru í aðstöðu til að semja með skynsamlegri hætti við fjárfesta en þau sem eru við það að klára aurinn,“ segir Steiner.

Ísland kjörið fyrir líf- og önnur hátæknifyrirtæki

Steiner segir að Ísland sé vel til þess fallið að reka líftækni- og önnur hátæknifyrirtæki. Vaxandi hluti þjóðarinnar er háskólagenginn og sækist eftir störfum við hæfi. Íslenska hagkerfið hefur færst frá því að vera auðlindadrifið, eins og með fisk, í að bjóða þjónustu og þróa flóknari vinnu. Mikilvægasti þáttur við uppbyggingu líftæknigeirans er virkur stuðningur frá ríkinu. Þó ekki einungis með fjárframlögum, sem er mikilvægt, heldur með því að leggja grunn að umhverfi sem hvetur til frumkvöðlastarfsemi og með samstarfi á milli atvinnugreina og vísindamanna í háskólasamfélaginu.

Þetta segir Steiner og bendir á að frá Íslandi hafi sprottið eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi, Actavis. Hann segir mikilvægt að tvinna saman fé frá hinu opinbera og fjárfestum. Með þeim hætti fái stjórnvöld fljótt aftur framlag sitt í gegnum skattkerfið þar sem megninu af fénu sé varið í að greiða laun.