Frostaskjól keypti í Sýn fyrir 560 milljónir króna í utanþingsviðskiptum í gær. Eftir viðskiptin á það 7,7 prósenta hlut í fyrirtækinu. Markaðsvirði hlutarins er um 622 milljónir króna. Á sama tíma seldi RES II, sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Ásgrímsdóttur, í Sýn hlut sem metinn er á um 553 milljónir króna.

Frostaskjól seldi á sunnudag í Heimavöllum fyrir 560 milljónir króna. Félagið er í jafnri eigu Reirs og Aztiq Fjárfestinga.

Framvirkur samningur

Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, „fer með yfirráð yfir Aztiq Fjárfestinga,“ eins og það er orðað í flöggun til Kauphallarinnar. Hann fer jafnframt með yfirráð yfir BBL 105 ehf., sem á fyrir 2.500.000 hluti í Sýn samkvæmt framvirkum samningi. Markaðsvirði hlutarins er 69 milljónir króna.

Fjárfest á Hlíðarenda

Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins við upphaf árs 2018 um eignarhald Alvogen að Frostaskjól ætti hagsmuni að gæta í byggingaframkvæmdum á Hlíðarenda.

Reir er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Hollendingsins Bernhard Jakob Strickler. Hilmar Þór er stjórnarformaður byggingafélagins Reir Verk. Það er meðal annars að byggja hótel við Vegamótstíg 7 og hefur áður byggt raðhús við Frostaskjól.

Í fyrra keypti Reir til dæmis 80 prósenta hlut í Gluggum og Gler. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá þeim tíma átti félagið í átta félögum, þar af fimm skráðum á hlutabréfamarkað.