Landsréttur sneri á föstudag við dómi héraðsdóms sem hafði sýknað Frjálsa fjölmiðlun af fimmtán milljóna króna kröfu Fjárfestingafélagsins Dalsins á hendur fyrrnefnda félaginu. Samkvæmt dómi Landsréttar ber Frjáls fjölmiðlun, sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, að greiða fjárfestingafélaginu umrædda fjárhæð með dráttarvöxtum.

Málið snýst um skuld Frjálsrar fjölmiðlunar við Fjárfestingafélagið Dalinn, sem er í eigu Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra hjá Alvogen og útgefanda Birtings útgáfufélags, á grundvelli samnings um kaup fyrrnefnda félagsins á 45 milljóna króna kröfu þess síðarnefnda á hendur Pressunni.

Samningurinn var gerður í tengslum við kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á útgáfurétti Pressunnar í september árið 2017 en á meðal miðla sem heyrðu undir Pressuna var DV.

Dalurinn byggði á því að Frjáls fjölmiðlun hefði keypt áðurnefnda kröfu félagsins á hendur Pressunni og að fyrsta greiðsla fyrir kröfukaupin, upp á fimmtán milljónir króna, væri gjaldfallin.

Á móti bar Frjáls fjölmiðlun því fyrir sig að Dalurinn hefði ekki átt neina kröfur á hendur Pressunni til þess að selja en hefði aftur á móti greitt fyrir hluti í félaginu. Jafnframt hefði Dalurinn nýtt tiltekin tryggingarbréf, sem samið hefði verið um að ætti að eyða, og tímaþröng vegna yfirvofandi gjaldþrots Pressunnar til þess að þvinga fram kröfukaupin. Samningurinn væri þannig kominn til vegna svika eða óheiðarlegt væri að bera hann fyrir sig, auk þess sem víkja bæri samningnum til hliðar þar sem ósanngjarnt væri og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig.

Til viðbótar hélt Frjáls fjölmiðlun því fram að Dalurinn hefði vanefnt umræddan samning með því að afhenda ekki skilríki sem sönnuðu tilvist kröfunnar.

Landsréttur féllst á kröfu Fjárfestingafélagsins Dalsins og gerði Frjálsri fjölmiðlun að greiða félaginu fimmtán milljónir króna auk dráttarvaxta.
Fréttablaðið/Ernir

Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að krafan, sem seld var Frjálsri fjölmiðlun, hefði verið til komin á þann hátt að Dalurinn hefði greitt eitt hundrað milljónir króna upp í hlutafjárloforð sitt til Pressunnar og að sú fjárhæð hefði verið nýtt til þess að greiða ýmsar skuldir fyrir Pressuna og tengd félög.

Þá taldi dómurinn Frjálsa fjölmiðlun ekki hafa sýnt fram á að fyrirhuguð hlutafjáraukning hefði gengið eftir og var því hafnað þeirri málsástæðu félagsins að Dalurinn hefði ekki átt kröfu á hendur Pressunni til þess að selja.

Dómurinn taldi auk þess ósannað að samið hefði verið um að eyða ætti tryggingarbréfunum, auk þess sem báðum félögum hefði verið kunnugt um slæma fjárhagsstöðu Pressunnar þegar samningurinn var gerður.

Var því hvorki fallist á það með Frjálsri fjölmiðlun að Dalurinn hefði nýtt sér tryggingarbréfin á sviksamlegan eða óheiðarlegan hátt til þess að þvinga Frjálsa fjölmiðlun til samningsgerðarinnar né að staða félaganna eða atvik væru með þeim hætti að sérstaklega hefði hallað á Frjálsa fjölmiðlun.

Loks var því hafnað að skilríki skorti um tilvist kröfunnar, enda hefði samningurinn verið undirritaður af þar til bærum aðilum fyrir hönd skuldara sem viðurkenndu þannig tilvist hennar.

Með hliðsjón af framangreindu var Frjálsri fjölmiðlun þannig gert að greiða Fjárfestingafélaginu Dalnum fimmtán milljónir króna með dráttarvöxtum.

Lesa má dóm Landsréttar hér.