FRÍSK, Félag rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndaiðnaði, hefur fengið lagt lögbann gagnvart forsvarsmanni IPTV Iceland sem er streymisveita sem selur aðgang að sjónvarpsútsendingum, ýmsu hljóð og myndefni og dagskrá þar sem sýnt er til dæmis frá knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni, en Sýn hf. á einkaréttinn á sýningum leikjanna á Íslandi.
Sýslumaður staðfesti lögbannið í dag og verður næst leitað staðfestingar hjá dómstólum á banninu. Auk þess verður farið fram viðurkenningu á skaðabótaábyrgð IPTV. Háttsemi forsvarsmanns IPTV verður einnig kærð til lögreglu.
Í tilkynningu frá FRÍSK kemur fram að allt það efni sem IPTV veitir aðgang að er af höfundarrétti og reglum höfundalaga og að IPTV hafi ekki aflað sér heimildar frá rétthöfum til sýningar á efninu, hvorki frá sjónvarpsstöðvunum sjálfum ná frá rétthöfunum sjálfum, það er eigendum höfundarréttindanna.
Í tilkynningunni kemur enn fremur fram að háttsemin brjóti gegn mörgum ákvæðum höfundalaga, auk annarra íslenskra laga. Þess er því krafist að forsvarsmaðurIPTV verði gert að hætta að dreifa og gera aðgengilegt höfundavarið sjónvarpsefni. Sýslumaður tók undir þær kröfur í dag og lagði lögbann við starfseminni.
„Við erum að sjá aukið framboð á svokölluðu netsjónvarpi þar sem íslenskir aðilar bjóða erlendar sjónvarpsstöðvar, myndefni eftir pöntun og íþróttaviðburði.Við höfum sett okkur í samband við flesta þessa aðila og hafði eigandi IPTV Iceland ekki orðið við beiðni rétthafa um að hætta starfsemi sinni og loka fyrir aðgang viðskiptamanna sinna að því hljóð- og myndefni sem hann miðlar til þeirra. Hafði FRÍSK með umboði Sýnar hf. því aðeins þann kost að grípa til lögbannsaðgerða til að vernda hagsmuni félagsmanna sinna,“ segir Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK.
Hallgrímur segir að búast megi við fleiri slíkum aðgerðum ef aðrir láti ekki af sömu iðju.
Íslenskir rétthafar verða af um einum milljarði í tekjum á hverju ári vegna ólögmæts streymis og niðurhals.
IPTV segist ætla að tryggja áframhaldandi þjónustu
Í kjölfar lögbannsins sendi IPTV tilkynningu á alla sína notendur og viðskiptavini þar sem þau fullyrða að lögbannið eigi ekki við rök að styðjast og þau ætli að tryggja áframhaldandi þjónustu. Þau segja FRÍSK ekki hafa neitt í höndunum til að loka á þau og bjóða að lokum sínum viðskiptavinum að endurnýja þjónustu sína. Tilkynningu þeirra má sjá hér að neðan í heild sinni.
Tilkynning IPTV til viðskiptavina
Góðan dag. Fréttir hafa borist af því að búið sé að setja lögbann á starfsemi iptviceland. Það á ekkert við um okkar viðskiptavini. FRISK er að fiska í mjög gruggugu vatni og virðast ætla reyna að gera einn aðila að blóraböggli fyrir alla aðra. Sem sagt reyna að hengja einn, öðrum til viðvörunar og það tók Sýslumaðurinn undir í dag. Við viljum biðja alla áskrifendur núverandi og fyrrverandi að halda sínum upplýsingum vel að sér til að tryggja áframhaldandi þjónustu. FRISK hefur ekkert í höndunum til að loka á okkar viðskiptavini og það viljum við fullvissa ykkur um. Ef þið viljið endurnýja eða kaupa áskrift þá bendum við á nýtt netfang netsjonis@gmail.com til að halda öllu á hreinu. Virðingarfyllst IPTV