Framtakssjóðurinn Freyja, sem rekinn er af Kviku eignastýringu hf., hefur keypt rúmlega 15% eignarhlut í Matorku ehf. og verður í kjölfar viðskiptanna þriðji stærsti hluthafi félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Matorka er fiskeldisfyrirtæki sem elur allan sinn fisk í stórum eldiskerjum á landi. Aðal áhersla félagsins er eldi á íslenskri bleikju en einnig framleiðir fyrirtækið regnbogasilung. Freyja framtakssjóður slhf. er 8 milljarða króna framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum félögum með góða rekstrarsögu og áhugaverð vaxtartækifæri. Freyja var stofnuð um mitt ár 2018 með áskriftarloforðum tæplega 20 hluthafa, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta.

Matorka hefur byggt upp stórar eldiseiningar við Grindavík og selur í dag bleikju og regnbogasilung til Evrópu og Norður-Ameríku. Á síðasta ári framleiddi félagið um 1.000 tonn af eldisfiski og hefur reksturinn skilað jákvæðri EBITDA framlegð frá árinu 2019.

Í tilkynningunni kemur fram að fyrirtækið hafi þróað sjálfbærar framleiðsluaðferðir sem skila afurðum í hæsta gæðaflokki og njóti mikilla vinsælda á mörkuðum félagsins, þar sem umhverfisáhrif og ástand heimshafanna eru mikilvægir þættir fyrir krefjandi neytendur nútímans.

„Þrátt fyrir flókna stöðu á fiskmörkuðum heimsins vegna covid-19 faraldursins hefur sölu og markaðsstarf Matorku gengið vel undanfarin misseri og hafa tekjur þess 18-faldast á síðastliðnum 5 árum eða frá því að framleiðsla hófst í nýrri eldisstöð við Grindavík,“ segir í tilkynningunni. Stefna félagsins sé að halda áfram á þeirri braut sem unnið hefur verið eftir á undanförnum árum og muni aðkoma Freyju að félaginu styðja við þau áform.

„Styrkleikar Matorku felast einkum í umhverfisvænni framleiðslu, sterku stjórnendateymi með mikla reynslu af fiskeldi, öflugum eigendahópi og nægu landrými fyrir framtíðarvöxt.“

Félagið hefur í dag starfsleyfi sem leyfir félaginu að margfalda framleiðslu sína í núverandi starfsstöð auk þess sem fyrirliggjandi fjárfesting í kerjum og öðrum framleiðslubúnaði leyfir félaginu að þrefalda núverandi framleiðslu á næstu 2 árum. Fulltrúi Freyju mun taka sæti í stjórn félagsins og taka virkan þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var ráðgjafi Matorku í viðskiptunum.

Bjarni K. Þorvarðarson, stjórnarformaður Matorku, segir það viðurkenningu fyrir teymið í Matorku að fá Freyju inn í hluthafahópinn. „Að baki félaginu býr áratuga reynsla stjórnenda fyrirtækisins og frumkvöðla þess í uppbyggingu landeldis og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þá þekkingu, sem og öflugt sölustarf, vekja áhuga hjá sterkum innlendum fagfjárfestum.“

Margit Robertet, framkvæmdastjóri Freyju, segir framtakssjóðinn sjá mikil tækifæri í Matorku og bendir á að fiskeldi hafi meira en fjórfaldast á síðustu 10 árum á Íslandi samhliða sívaxandi neyslu almennings á fiski. „Styrkleikar Matorku felast einkum í umhverfisvænni framleiðslu, sterku stjórnendateymi með mikla reynslu af fiskeldi, öflugum eigendahópi og nægu landrými fyrir framtíðarvöxt. Fjárfestingin fellur enn fremur einkar vel að áherslum sjóðsins á ábyrgar fjárfestingar en félagið er leiðandi í sjálfbæru og umhverfisvænu fiskeldi.“

Árni Páll Einarsson, forstjóri Matorku, segir að með súrnun sjávar og ört vaxandi plastmengun í heimshöfunum séu vestrænir neytendur í síauknum mæli að leita að sjálfbærri sjávarfangsframleiðslu. „Matorka nýtir sér einstakar náttúruaðstæður á Íslandi til þess að framleiða eftirsótta og afar bragðgóða hágæða vöru án þess að skaða umhverfið eða sjávarlífríkið.“