Sælgætisgerðin Freyja og Langsjávar ehf. hafa undirritað kaupsamning á dótturfélagi Freyju, K-102 ehf., að fullu og einnig fasteignir sem tengjast rekstrinum. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Freyju og Langasjávar.
Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi, en fyrirtækið var stofnað árið 1918. Um er að ræða eitt þekktasta vörumerki landsins, en meðal vörutegunda sem framleiddar eru af Freyju eru Draumur, Rís og Djúpur.
Ævar Guðmundsson, stjórnarformaður Freyju segir að honum líði vel með að setja Freyju í hendur Langasjávar.
„Eftir yfir 40 ára uppbyggingu okkar fjölskyldunnar á Freyju er fyrirtækið komið á mjög góðan stað en jafnframt með gríðarlega mörg ónýtt tækifæri í augsýn. Sérstaklega í vöruþróun og stöðugum vexti í útflutningi eftir 15 ára vinnu við að byggja upp viðskiptatengsl. Því finnst mér þetta góður tími til að hefja nýjan kafla í lífinu og koma fyrirtækinu í hendur á traustum eigendum,“ segir Ævar.
Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum og sinnir einnig útleigu og uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar ehf. eru Alma íbúðafélag hf., Brimgarðar ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf. Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.