Ársverðbólgan er því komin í 10,2 prósent og hækkar úr 9,9 prósentum í janúar. Er þetta í fyrsta sinn í meira en áratug sem verðbólgan mælist í tveggja stafa tölu.

Athyglisvert er að greinendur á Íslandi og víðar virðast um þessar mundir vanmeta verðbólgu í sínum spám, en hið sama gerðist í Frakklandi og á Spáni.

Mestu munar á spám greiningardeilda og mælingu Hagstofunnar í liðum á borð við húsgögn, heimilisbúnað, tómstundir og menningu, auk flugfargjalda. Vaxtahækkanir Seðlabankans virðast hins vegar hafa náð að kæla húsnæðismarkaðinn og í febrúar hafði íbúðaverð áhrif til lækkunar vísitölunnar í fyrsta sinn í langan tíma.

Reiknaða húsaleigan, sem er séríslenskur liður í mælingu neysluvísitölunnar, hækkaði þó í febrúar þrátt fyrir að húsnæðisverð hafi farið lækkandi þrjá mánuði í röð. Þá lækkuðu bílar í verði og rafmagns- og húshitunarkostnaður heimila lækkaði lítið eitt.

Í ljósi þess að peningastefnunefnd Seðlabankans taldi líklegt á síðasta vaxtaákvörðunarfundi sínum að auka yrði aðhald peningastefnunnar enn frekar á næstunni búast hagfræðingar bankanna við 12. vaxtahækkuninni í röð á næsta fundi síðar í þessum mánuði.