Raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum Noregi og Kanada. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu þýska ráðgjafarfyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar gagnvart stórnotendum, en skýrslan var unnin að beiðni iðnaðarráðuneytisins. Niðurstöður skýrslunnar miðast við raforkuverð árið 2019.

„Ég óskaði eftir skýrslunni í febrúar sl. vegna vaxandi umræðu um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkuverðs. Leyndin sem hvílir yfir raforkusamningum stórnotenda hefur augljóslega hamlað þeirri umræðu, auk þess sem ítarleg athugun á raunverulegum raforkukostnaði stóriðju í öðrum löndum hefur ekki legið fyrir,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, iðnaðarráðherra, á vefsíðu ráðuneytisins.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að raforkukostnaður íslenskra álvera sé samkeppnishæfur við Noreg og Kanada, en bæði lönd ráða yfir mikili vatnsaflsorku líkt og Ísland og selja töluverða raforku til álvera að sama skapi. Einnig kemur fram að raforkukostnaður gagnavera sé ámóta á Íslandi og í Noregi.

Samhliða birtingu skýrslunnar tilkynnti iðnaðarráðuneytið að ráðist verði í greiningu á fyrirkomulagi dreifingu og flutningi raforku á Íslandi: „Að undanförnu hefur verið umræða um flutnings- og dreifikostnað raforku á Íslandi og rekstrarumhverfi sérleyfisfyrirtækja sem sjá um flutning og dreifingu raforku samkvæmt raforkulögum. Flutningsfyrirtækið Landsnet og dreifiveitur starfa innan ramma tekjumarka sem Orkustofnun setur þeim samkvæmt ákveðnum viðmiðum og forsendum sem koma fram í raforkulögum og reglugerðum. Eru þau ákvæði raforkulaga í grunninn frá árinu 2003 en var talsvert breytt 2011. Ákvarða tekjumörkin gjaldskrár sérleyfisfyrirtækjanna fyrir flutning og dreifingu raforku,“ segir á vefsíðu iðnaðaráðuneytisins.

Þar segir jafnframt: „Til að bregðast við gagnrýni og ólíkum sjónarmiðum sem fram hafa komið, m.a. á leyfða arðsemi, fjármagnskostnað, rekstrarkostnað o.fl., hefur ráðuneytið fengið Deloitte til að vinna óháða greiningu og rýni á lagalegu umhverfi við setningu tekjumarka sérleyfisfyrirtækja. Hluti af greiningunni er að leggja mat á hvaða atriði hafa áhrif á reiknuð tekjumörk, og með hvaða hætti, ásamt samanburði við önnur lönd. Jafnframt úttekt á því hvernig eftirliti og eftirfylgni með setningu tekjumarka er háttað, m.a. hvernig kröfu um hagræðingu er fylgt eftir.“