Franskur fjárfestir hefur eignast tólf prósenta hlut í bílaumboðinu Öskju í kjölfar nýlegrar hlutafjáraukningar sem félagið réðst í, meðal annars vegna kaupa þess á Honda umboðinu á Íslandi. Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum í dag.

Í frétt blaðsins segir að franska fyrirtækið Groupe Comte-Serres hafi lagt Öskju til fjármagn í hlutafjáraukningunni, líkt og aðrir hluthafar. Er kaupverðið sagt trúnaðarmál.

GCS er ríflega hundrað ára gamalt fyrirtæki og á meðal annars fyrirtækið Citadelle sem er umboðsaðili Toyota, Volkswagen, Audi, Citroen, Suzuki, Hyundai, Ford og Seat og hefur selt bíla í handanhafshéröðum Frakklands, eftir því sem fram kemur í fréttinni. Velta félagsins var um 23 milljarðar króna á síðasta ári og starfa þar um fjögur hundruð manns.

„Við hjá Öskju erum afar ánægð að fá þennan öfluga hluthafa í okkar hóp,“ er haft eftir Jóni Trausta Ólafssyni, framkvæmdastjóra og einum eigenda Öskju, í Viðskiptamogganum.

Bílaumboðið Askja samdi síðasta vor um að kaupa Honda-umboðið á Íslandi af Bernhard sem var áður í eigu fjölskyldu stofnandans, Gunnars Bernhards. Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupin síðasta sumar. Askja fer í kjölfarið með umboð fyrir Mercedes-Benz, Kia og Honda hér á landi.