Stjórn Sam­taka Fyrir­tækja í Veitinga­rekstri, SVEIT, lýsir yfir á­hyggjum af fram­tíðar­sýn sótt­varna­læknis þegar kemur að veitinga­markaðinum en í til­lögum hans er kveðið á um að veitinga­staðir, krár og skemmti­staðir hafi ekki opið lengur en til 23 á kvöldin þar til far­aldrinum er lokið, sem gæti tekið mánuði og jafn­vel ár.

„Þessi fram­tíðar­sýn er eins og blaut tuska framan í stóran hluta veitinga­markaðarins sem hefur verið meira og minna ó­starf­hæfur frá því að veiran kom fyrst til landsins,“ segir í yfir­lýsingu SVEIT og er þar tekið fram að krár og skemmti­staðir hafi þurft að lúta ströngustu sótt­varna­reglum í gegnum far­aldurinn.

Skemmti­stöðum og krám var til að mynda lokað al­farið á tíma­bili í vetur og eftir að þeim var leyft að opna hafa þau þurft að fylgja ströngum reglum um opnunar­tíma, gesta­fjölda og skráningu þeirra, og grímu­skyldu. SVEIT segir að á sama tíma hafi ekki verið færð nein rök fyrir að fleiri smit hafi komið upp hjá fyrir­tækjum á veitinga­markaði heldur en annars staðar í sam­fé­laginu.

Ófyrirsjáanleikinn mikill fyrir veturinn

Sam­tökin lýsa einnig á­hyggjum yfir að skemmtana­hald færist ein­fald­lega annað, til að mynda í heima­hús­næði, ef sýn sótt­varna­læknis verður að veru­leika en þar væri ekkert eftir­lit. „Þar mun myndast svipuð eða meiri hætta á hóp­smiti og nú þegar er fyrir hendi á veitinga- og skemmti­stöðum,“ segir í yfir­lýsingunni.

„Í greininni starfa um 10.000 manns — að stórum hluta til ungt fólk sem mun missa vinnu við slíkar að­gerðir. Auk þess gerir ó­fyrir­sjáan­leikinn , sem blasir við greininni, henni ó­kleift að fara inni í veturinn,“ segir enn fremur í yfir­lýsingunni.

Þá segja sam­tökin það al­ger­lega ó­rök­stutt hvers vegna þörf er á svo hörðum að­gerðum hjá veitinga­markaðinum á meðan hundruð manna hópast saman annars staðar. „SVEIT skorar því á sótt­varna­lækni að veita hald­bær rök, studd gögnum og tölu­legum upp­lýsingum, um nauð­syn þess að skerða af­greiðslu­tíma veitinga- og skemmti­staða svo veru­lega með til­heyrandi tjóni fyrir greinina.“

200 manna sam­komu­bann er nú í gildi á landinu öllu, auk eins metra reglu og grímu­skyldu en nú­verandi reglu­gerð er í gildi út 27. ágúst næst­komandi.