Framtakssjóðurinn TFII, sem er í rekstri hjá Íslenskum verðbréfum, hagnaðist um 1.420 milljónir króna árið 2020 samanborið við 33 milljón króna tap árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi TFII.

Mest munar um hækkun á verðmati TFII á 85,6 prósent hlut sjóðsins í Hreinsitækni sem metinn var á 2,8 milljarða króna við árslok 2020 en var metinn á 1,1 milljarð króna við árslok 2019.

Eignir TFII námu 4,4 milljörðum króna í lok árs 2020 en voru 2,7 milljarðar króna í lok árs 201. Eigið fé sjóðsins nam 4,1 milljarði króna í lok 2020 samanborið við 2,6 milljaðra króna í lok 2019. Arðsemi eigin fjár nam því 54 prósent á árinu 2020.

TFII var stærsti hluthafi Coripharma við síðustu áramót með 14,7 prósent hlut. Virði hlutar sjóðsins í Coripharma hækkaði á milli ára. Árið 2019 var 20,6 prósenta hlutur TFII metinn á 575 milljónir króna en við árslok 2020 var 14,7 prósenta hlutur metinn á 716 milljónir króna. Sjóðurinn jók við fjárfestingu sína í Coripharma á árinu 2020. Miðað við þetta var hlutafé Coripharma metið á 4,9 milljarða króna við síðustu áramót.

TFII á sjö prósenta hlut í líftæknifyrirtækinu Genís sem metinn var á 375 milljónir króna við lok árs 2020. Bókfært virði breyttist ekki á milli ára. Miðað við það var hlutafé Genís metið á 5,2 milljarða króna.

Í lok árs 2020 fjárfesti TFII í 50 prósenta hlut í félögunum Hringrás og HP gámum og hélt þannig áfram sinni vegferð í fjárfestingum í umhverfisþjónustu og tengdum innviðum.

Helstu hluthafar TFII eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn með 19 prósenta hlut, Stapi lífeyrissjóður með 18 prósenta hlut, Festa lífeyrissjóður með 17 prósenta hlut, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja með átta prósenta hlut, KEA svf með sex prósenta hlut, Lífsverk lífeyrissjóður með fimm prósent, Lífeyrissjóður bænda með fjögur prósent og Eftirlaunasjóður Félags íslenskra atvinnuflugmanna EFÍA með þrjú prósent.

Sjóðstjórar eru Hrafn Árnason og Jón Helgi Pétursson, starfsmenn Íslenskra verðbréfa.