Ríkisendurskoðun telur athyglisvert að árið 2015 hafi Reykjavíkurborg gengið til samnings við Ríkisútvarpið um lóðaréttindi og byggingarétt á lóðinni við Efstaleiti án þess að gera kröfu um þátttöku í stofnkostnaði innviða og því að gera lóðina byggingarhæfa.

Þetta kemur fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á Ríkisútvarpinu. Stofnuninni þykir einnig athyglisvert hversu lítill hluti afraksturs þessa samnings kom í hlut borgarinnar.

„Ríkisendurskoðandi leggur ekki mat á það hvort hér sé í reynd um opinbera aðstoð að ræða. Þó er víst að bæði ríki og borg framseldu umtalsverð verðmæti til ógjaldfærs opinbers hlutafélags til að hægt yrði að lækka skuldir þess,“ segir í úttektinni.

Í því samhengi nefnir Ríkisendurskoðun þær takmarkanir sem ríkisaðstoðarreglur EES-samningins og reglur Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) setja á fjármögnun ríkisstyrktra fjölmiðla.

Ríkisendurskoðun tekur fram að ekki hafi verið leitað eftir samþykki Reykjavíkurborgar þegar lóðinni við Efstaleiti var skipt upp við stofnun RÚV ohf., þ.e. á milli félagsins og ríkissjóðs.

„Heimild ríkissjóðs til uppskiptingarinnar er í besta falli óljós en engu að síður hefur Ríkisendurskoðun ekki fengið upplýsingar frá Reykjavíkurborg sem sýna fram á að borgin hafi véfengt gjörninginn eða farið fram á breytingar á skipulaginu.“

Í öðru lagi hafi ávallt legið fyrir að grundvöllur leigsamnings Reykjavíkurborgar og Ríkisútvarpsins hafi verið að á lóðinni við Efstaleiti risi hús undir starfsemi RÚV.

„Með tímanum varð ljóst að heildarlóðin reyndist ekki nauðsynleg fyrir starfsemi félagsins en breytingar á lóðaleigusamningi árið 1995 gerðu það að verkum að Reykjavíkurborg gat ekki afturkallað úthlutun lóðarinnar á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir tímasettar byggingaáætlanir.“

Vildu að lóðunum yrði skilað

Þá kemur fram að borgarráð hafi skilað umsögn í tengslum við lagabreytingu um Ríkiútvarpið árið 2006. Í umsögninni kom fram að borgarráð hefði sama ár samþykkt að ganga eftir því að vannýttum lóðum við húsnæði Ríkisútvarpsins við Efstaleiti yrði skilað svo að þar mætti skipuleggja atvinnulóðir sem veruleg ásókn væri í.

Ljóst væri að af frekari uppbyggingu í tengslum við útvarpsrekstur á lóðinni yrði ekki og þar með væru forsendur úthlutunar svo stórrar lóðar brostnar. Taldi borgarráð afar óeðlilegt að gert væri ráð fyrir því að sá hluti lóðarinnar sem ekki nýttist undir starfsemi Ríkisútvarpsins gengi til hlutafélagsins Ríkisútvarpið ohf.

„Þegar Ríkisendurskoðun óskaði svara við því hvers vegna ekki hefði verið gengið eftir því að lóðinni yrði skilað var vísað í skilmálabreytinguna árið 1995. Eftir stendur þó að tilgangur lóðaleigusamnings var enn sá að þar yrði reist hús fyrir útvarpsrekstur sem aldrei varð raunin. Miðað við tímasetningu framangreindrar umsagnar borgarráðs hlýtur afturköllun lóðarinnar að hafa átt að vera á þeim forsendum,“ segir í úttektinni.