Breska lyfjafyrirtækið Hikma Pharmaceuticals, sem stýrt er af Sigurði Óla Ólafssyni, mun hefja framleiðslu á remdesivir, sem hefur reynst vel gegn kórónaveirunni, fyrir bandaríska lyfjarisann Gilead.

Reuters hefur eftir Sigurði Óla, eða Sigga eins og hann er nefndur, að framleiðslan verði í verksmiðju fyrirtækisins Portúgal og hefjist bráðlega. „Skilyrði samningsins eru trúnaðarmál, við erum einfaldlega verktaki fyrir Gilead. Þeir leggja inn pantanir í takt við væntingar um sölu,“ sagði Siggi í samtali við Reuters.

Rannsóknir undanfarna mánuði hafa leitt í ljós að remdesivir, sem var upphaflega þróað gegn lifrarbólgu C og notað gegn ebólu, sé eitt af tveimur lyfjum sem hafa sértæka verkun á kórónaveiruna.

Bandarísk stjórnvöld hafa keypt upp allar birgðir af lyfinu remdesivir út september og hefur Gilead því unnið hörðum höndum að því að finna samstarfsfyrirtæki í mismunandi heimsálfum til að auka framleiðsluna. Markmiðið er að framleiða næga skammta fyrir tvær milljónir sjúklinga á þessu ári.

Siggi var ráðinn forstjóri Hikma í febrúar 2018 en hann hafði áður starfað sem forstjóri Actavis og forstjóri samheitalyfjasviðs Teva, móðurfélags Actavis. Hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu um tæplega sex prósent eftir að greint var frá samningnum við Gilead og góðu uppgjöri sem fór fram úr væntingum greinenda.