„Best væri að 30 daga tilskipunin yrði innleidd sem fyrst,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Elko, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Í grein sinni kallar Óttar eftir því að tilskipun Evrópusambandsins til að stemma stigu við því sem hann kallar blekkingarleik verði innleidd hér á landi.
„Úti um allan heim nota verslanir tilboð sem markaðstól, en þau geta hins vegar verið varasöm. Fjöldi verslana hefur fallið í þá gryfju að vera ítrekað og með stuttu millibili með sömu vörur á tilboði og komnar í þá stöðu að viðskiptavinir kaupa bara á tilboðsdögum. Í slíkum tilvikum geta tilboð unnið á móti ímynd verslana og dregið úr trausti. Þarna er tilboðið hætt að vera tilboð, enda sömu vörur jafnvel vikulega á sama tilboði. Svona verðlagning blekkir neytendur,“ segir Óttar.
Hann segir að Evrópusambandið hafi innleitt tilskipun til að bregðast við þessu sem er í sjálfu sér ekki flókin. „Hærra verðið (fyrra verðið í tilboðinu) á að vera lægsta verð vörunnar undangengna 30 daga.“
Óttar segir að þetta þýði að afsláttur reiknast frá lægsta söluverði síðustu 30 daga og kemur í veg fyrir að sama tilboðið sé notað ítrekað um hverja helgi.
„Tilskipunin hefur ekki enn verið innleidd hér og þess má sums staðar sjá merki í framsetningu vöruverðs. Tilboðsmenning og traust til verslana kann því smám saman að bíða skaða án þess að við áttum okkur á því,“ segir Óttar og bætir við að áralöng reynsla hans af smásöluverslun hafi gert honum ljóst að traust viðskiptavina sé eitt það mikilvægasta sem fyrirtæki hafa.
Bendir hann á að ELKO auglýsi tilboð í takti við 30 daga tilskipunina og að ELKO hafi tekið það skref fyrir skemmstu að setja í loftið verðsögu á vef fyrirtækisins. Þar geti viðskiptavinir séð allar verðbreytingar aftur í tímann. Hvetur hann að lokum til þess að 30 daga tilskipunin verði innleidd sem fyrst öllum til hagsbóta.