Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, segist vera „hugsi yfir nærveru Seðlabankans og þeim grímulausu eignastýringarskilaboðum til lífeyrissjóða sem nálgast orðið brot á 2 metra reglunni.“

Þetta kemur fram í færslu sem hann birti á Facebook fyrir skemmstu en tilefnið er viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Fréttablaðinu í dag. Þar sagðist Ásgeir hafa áhyggjur af því, sem hefði skapað ákveðið misvægi á fjármálamarkaði, að lífeyrissjóðirnir væru að mestu fjarverandi þegar kemur að því að fjármagna bankakerfið og eins ríkissjóð með kaupum á ríkisskuldabréfum á markaði.

„Ég hefði viljað sjá lífeyrissjóðina, sem eiga um 200 milljarða á innlánsreikningum, binda þá fjármuni í meira mæli í bankakerfinu. Þeir eru eðlilega með mikið af innlánum en þau eru mikið til óbundin og því er ekki grundvöllur fyrir bankana til að miðla þeim áfram í útlán, til dæmis til fyrirtækja. Þetta er áhyggjuefni sérstaklega þegar fram í sækir,“ sagði seðlabankastjóri.

Þá nefndi Ásgeir að hann vildi fara varlega í peningaprentun, meðal annars að fjármagna bankakerfið með því að taka við sértryggðum bréfum frá þeim í veðlánaviðskiptum, heldur væri „eðlilegra að lífeyrissjóðirnir kæmu að slíkri fjármögnun.“

Ólafur segist ekki ætla að vera „ofurviðkvæmur fyrir gagnrýni í okkar garð“ og að Seðlabankinn geti auðvitað gert athugasemdir við fjárfestingarstefnu Birtu, sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins, sem sjóðurinn sendi bankanum í lok þessa mánaðar.

„Ég er umvafinn frábæru fólki sem myndar bæði stjórn og fjárfestingaráð Birtu og þetta viðtal fer klárlega inn í þá umræðuna. Hvernig er skynsamlegast að ráðstafa eignum á milli ára, það er vel að margir hafi skoðun á því,“ segir Ólafur og bætir við:

„Hvað kerfið varðar þá sýnist mér að lífeyrissjóðir eigi um 55 prósent af útgefnum sértryggðum skuldabréfum bankana og ætli Íbúðalánasjóðurinn sálugi eigi ekki líka mikið, maður finnur ekkert um það á netinu. Af þessum tölum skynja ég nú ekki beint fjarveru lífeyrissjóða frekar en of mikla nærveru þeirra á markaði. Hann er klárlega vandrataður þessi gullni meðalvegur,“ segir Ólafur.

Ég er hugsi yfir nærveru Seðlabankans og þeim grímulausu eignastýringarskilaboðum til lífeyrissjóða sem nálgast orðið...

Posted by Ólafur Sigurðsson on Thursday, 19 November 2020